Færsluflokkur: Matur og drykkur

Kynning á landi og afurðum

  

Það fer sífellt vaxandi að neytendur leiti að gæðum matvæla umfram verð. Nú er talið að um 10 % neytenda (um 35 milljónir) í Bandaríkjunum setji það fyrir sig hver gæðin eru, hvaðan afurðirnar koma og hvaða áhrif,  matvæli hafi á líkamlegt heilsufar og vellíðan. Umræðan um svokallaða Raw Food, Slow Food og Super Food hreyfingar meðal þjóðarinnar verður æ meira áberandi. Allt eru þetta hugtök sem standa fyrir hollustu og vöru sem verður til í sátt við umhverfið og náttúru.

 

Til stendur að byggja glæsilega heimasíðu undir nafni Sustainable Iceland, the first in the World! Þar verði staðgóðar upplýsingar um Ísland, um  sjálfbæran landbúnað, fiskveiðar, orku, menntamál, heilbrigðismál, hagkerfi osfrv. Fagfólki á Íslandi og í Bandaríkjunum verði fengið til að vinna síðuna, en stuðst verði meðal annars við stefnumótun Íslendinga sem kynnt var á þingi Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg árið 2002. Afar mikilvægt er að síðan verði uppfærð á degi hverjum.

 

Þá verði á síðunni fimm flokkar afurða sem fólk getur keypt og fengið sendar heim samdægurs eða innan 2ja daga. Flokkarnir verði Food and Food Supplements, Cosmetics, Clothing, Travel og Music and Culture. Gert er ráð fyrir að unnt verði að setja allt að 150 vörutegundum og þjónustu til að byrja með.

 

Flutningar afurða

 

Verði hugmyndin um vöruhótel að veruleika verða vörurnar fluttar í gámum frá Íslandi til áfangastaðar í Bandaríkjunum  og þannig lækkar flutningskostnaðurinn verulega. Úr vöruhúsinu verða síðan vörurnar afgreiddar jafnóðum og þær berast og þá lækkar flutningskostnaðurinn um allt að 80%. Fyrirtækin selja þá afurðir sínar á smásöluverði og greiða hlutfall af smásöluverðinu  til Sölumiðstöðvarinnar og fast þjónustugjald fyrir hverja sendingu til kaupenda til vöruhótelsins. Greiðslur til framleiðenda munu svo berast um leið og vara er send frá vöruhótelinu.

 

Með þessu móti má sjá mikla hagræðinu en auk þess verður unnið að því að koma hinum íslensku afurðum í verslanir sem sérhæfa sig í hreinum og áhugaverðum íslenskum afurðum. Þar gætu Whole Foods Markets verið góður kostur, enda hefur fyrirtækið góða reynslu af íslenskum afurðum. Auk þeirra er fjöldi annarra verslana sem sérhæfa sig í sölu svokallaðra hollustuafurða. Það fer sífellt vaxandi að neytendur leiti að gæðum matvæla umfram verð og er nú talið að um

 

Sustainable Iceland

Það er því lagt til að sölu- og markaðsfyrirtækið sameini krafta undir merkjum Sustainable Iceland og setji upp í samvinnu við fyrirtækin vöruhótel í Ameríku. Þaðan verði  unnt að senda vörur samdægurs til kaupenda innan Bandaríkjanna. Það er mjög dýrt fyrir einstök lítil fyrirtæki að standa straum af kostnaði við að koma upp slíkri aðstöðu.  En með því að sameina kraftana má ná fram umtalsverðri hagræðingu.

 

Verði hugmyndin um vöruhótel að veruleika verða vörurnar fluttar í gámum frá Íslandi til áfangastaðar í Bandaríkjunum  og þannig lækkar flutningskostnaðurinn verulega. Úr vöruhúsinu verða síðan vörurnar afgreiddar jafnóðum og þær berast og þá lækkar flutningskostnaðurinn mikið. Fyrirtækin selja þá afurðir sínar á smásöluverði og greiða hlutfall af smásöluverðinu  til sölu- og markaðsfyrirtækisins og fast þjónustugjald fyrir hverja sendingu til kaupenda til vöruhótelsins. Greiðslur til framleiðenda munu svo berast um leið og vara er send frá vöruhótelinu.

 

Með þessu móti má sjá mikla hagræðinu en auk þess verður unnið að því að koma hinum íslensku afurðum í verslanir sem sérhæfa sig í hreinum og áhugaverðum íslenskum afurðum. Þar gætu Whole Foods Markets verið góður kostur, enda hefur fyrirtækið góða reynslu af íslenskum afurðum. Auk þeirra er fjöldi annarra verslana sem sérhæfa sig í sölu svokallaðra hollustuafurða.

  

Framleiðendur

Á Íslandi eru margir framleiðendur sem hafa þróað margskonar fæðubótarefni, snyrtivörur og matvæli sem talið er að eigi möguleika á sölu í Bandaríkjunum og líklega í Evrópu og Asíu á sömu forsendum. Stefnan er þó að því að beina sjónum sölufyrirtækisins einkum að Ameríku til að byrja með. Evrópa og Asía geta komið síðar. Ef vel tekst við markaðssetningu á því markaðssvæði veraldar sem mestar kröfur gerir, Bandaríkin mun fyrirtækið verða vel í stakk búið til að sinna öðrum sambærilegum mörkuðum.

 

Allmörg íslensk fyrirtæki  hafa þróað ýmis fæðubótarefni,  snyrtivörur og fatnað úr íslensku hráefni á undanförnum árum. Flest þessara fyrirtækja hafa tekið langan tíma í þróunarferlinu og öðlast virðingu á heimamarkaði og fengið margvíslegar viðurkenningar. Hér er um að ræða afurðir sem meðal annars er unnar úr birkitrjám, fjallagrösum, hvannarrót, þara, þörungum og sölum. Þá eru jafnframt þekktar afurðir unnar úr sjávarfangi svo sem lýsi, beinamjöl, ensími og fleiru.

 

Þau fyrirtæki sem undirritaður hefur skoðað, eiga öll við svipað vandamál að stríða þegar kemur  að sölu, kynningu og markaðssetningu á erlendum mörkuðum. Flest eru þau  lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki með afar takmarkaða fjármuni. Sum þeirra hafa reynt fyrir sér í netverslun en flutningskostnaður frá Íslandi er afar hár og oftar en ekki hærri en vöruverðið sjálft.


Fyrirtæki

 

Nú er komin fram hugmynd um stofna fyrirtæki, Sölumiðstöð Íslands  sem eignast mun fyrirtækið Sustainable Iceland sem er markaðsfélag í Bandaríkjunum. Allar afurðir sem nú eru seldar í smásöluverslunum WFM kynntar undir því vörumerki. Sölumiðstöðin ætti því að verða eðlilegt framhald af átaksverkefninu Áformi. Áform var lengst framanaf,  styrkt af Landbúnaðarráðuneytinu í samvinnu við Bændasamtök Íslands en á seinni árum einnig  með mótframlögum fyrirtækjanna sem unnið hefur verið með til markaðssetningar.

 

 Á síðustu tveimur hefur orðið vakning meðal Bandaríkjamanna um hollustu matvæla. Sú mikla fræðsla, sem fram hefur farið, fékk góðan hljómgrunn í heilbrigiðsfrumvarpi sem þingið hefur samþykkt. Forsetaembættið undir forystu forsetafrúarinnar hefur vakið athygli á því að meira en helmingur Bandaríkjamanna þjáist af sjúkdómum sem beint tengjast mataræðis, til dæmis offitu, sykursýki og háu stigi kólesteróls í blóði. Áhugi fólks á  breyttu mataræði fer því vaxandi og falla því íslenkar afurðir einkar vel að þeirri hugarfarsbreytingu,  sem nú á sér stað.

    

Útflutningshugmynd

 Nú langar mig til að leika mér að hugmynd sem mætti nota til að sameina krafta lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stærri fyrirtækja með reynslu og burði til sölu íslenskra afurða á erlendum mörkuðum. Það þróunarstarf sem Áform hefur unnið að í Bandaríkjunum hefur nú sannað að það er hægt að selja okkar afurðir á gæðamörkuðum ef vel er að því staðið.

Þróunarstarf það sem Áform hefur staðið fyrir gekk út á það að kanna hvort íslenkar landbúnaðarafurðir eigi erindi á erlenda markaði eða ekki. Starfið hefur nú leitt til þeirrar staðreyndar að afurðirnar eiga erindi á markaði, hitt hefði líka geta orðið niðurstaða að afurðirnar ættu ekki erindi.

 Það eru því miður ekki allir sáttir við að þetta hafi verið niðurstaðan, en við því er ekkert að segja. Það er nú bara þjóðareðlið sem er þannig að menn verða alltaf að finna öllu til foráttu og standa í eilífðar deilum en það er þjóðareinkenni sem því miður er ljóður á okkar samfélagi og helsta orsök .þess að við stöndum í stað á tímum sem þessum. Þrátt fyrir það blasa tækifæri við okkur úti um allan heim.

Á næstu dögum langar mig því til að deila með ykkur þessari hugmynd og vona að hún veki einhverja til umhugsunar um leið þar sem fyrirtæki geta séð að það sé betra að eignast 20% af einhverju í stað 100% af engu.

Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að sölu, markaðssetningu og kynningu á íslenskum afurðum og þjónustu í Bandaríkjunum. Einkum hefur verið lögð áhersla á  afurðir sem uppfylla ströng skilyrði um uppruna úr íslenskri náttúru, dýra og umhverfisverndar höfð að leiðarljósi við framleiðsluna og afurðirnar unnar á Íslandi.

 

Þær verslanir sem einkum hafa stutt við þessa viðleitni eru hinar þekktu og virtu verslanir Whole Foods Markets sem eiga og reka 320 verslanir víða um Bandaríkin. Nú eru seldar eftirtaldar afurðir í verslunum WFM: Skyr fjórar bragðtegundir og stefnt að því að þeim fjölgi. Tvær tegundir af smjöri saltað og ósaltað, fjórar tegundir af súkkulaði og ferskur línufiskur beint frá sjávarplássi.  Ferskt lambakjöt í sláturtíð og stefnt að sölu á frystu kjöti í neytendapakkningum allt árið um kring  og  til notkunar í tilbúna rétti og veitingahús.

 

Sú reynsla sem áunnist hefur við markaðssetningu þessara afurða er mjög verðmæt þar sem um er að ræða  jafnt ferskar afurðir með takmarkað geymsluþol sem og þurrvara með langt geymsluþol. Ferskvaran er öll flutt með flugi og þurrvaran með skipum. Að komast í gegnum frumskóg innflutnings reglna í Bandaríkjunum svo sem Food and Drug Administration (FDA) og United States Department of Agriculture (USDA) hefur tekið langan tíma en nú eru samskiptin orðin eðlileg og völundarhús þessara stofnana nú vel þekkt og leiðirnar ljósar.

 

Á undanförnum árum hefur Áform átaksverkefni unnið að þessum verkefnum í samvinnu við framleiðendur á Íslandi, innflytjendur í Bandaríkjunum og smásöluverslunina. Sérstök áhersla hefur verið lögð á hollustu afurðir sem uppfylla ströng skilyrði um gæði, hreinleika, dýravernd, uppruna osfrv. Þar hafa verslanir WFM reynst mikilvægu hlekkur í vottunarferlinu enda þær einu sem sett hafa saman reglugerð umsjálfbæra framleiðsluhætti.

   

Björgvin Helgi Halldórsson 60 ára! Getur það verið?

Frændi minn og jafnframt einn  allra besti vinur fagnar í dag stórafmæli. Ég sakna þess að vera ekki heima á landinu fagra í tilefni dagsins, það gera aðstæður, sem eru þannig að ég hreinlega kemst ekki til að samfagna Björgvini sem áður var alltaf kallaður Bjöggi og svo kom Bó! Hann er og verður samt alltaf Björgvin frændi eða einsog ég hef kallað hann okkar á milli Túlli. Það var gælunafn föður hans sem var föðurbróðir minn.

 

En þannig kynntumst við frændurnir einmitt í gegnum feður okkar Halldór sem var kallaður Túlli og Jón Hauk Baldvinsson sem gekk undir gælunafninu Bósi. Systkini þeirra voru svo Ásta og Hafsteinn. Þeir bræður voru miklir gleðimenn og höfðu þeir þrír allir gaman af söng og þá sjaldan þeir komu saman þá sungu þeir og þá var gaman. Ásta var líka afar stolt af bræðrunum.

 

Mínar sælustu minningar eru frá þeim árum sem Túlli togarjaxl var enn á sjónum og pabbi fór í heimsókn til Hafnarfjarðar. En það gerði hann yfirleitt þegar Túlli kom úr siglingum. Þá fór pabbi með mér í Fjörðinn og tók á móti bróður sínum. Yfirleitt var þetta á mánudögum eða þriðjudögum sem togararnir komu í land, því á voru minni líkur á að áhöfnin færi að skemmta sér og kæmi því seint eða illa aftur um borð.

 

Þeir bræður fóru svo heim til Túlla á Austurgötuna svona um hádegisbilið. Þar var auðvitað Baldi bróðir aðalmaðurinn, hann er elsti bróðir Björgvins.  Björgvin var þá rétt nýfæddur en Baldi bróðir var sá sem maður leit ávallt upp til. Bræðurnir Túlli og Bósi settust í sitt hvorn Chesterfield stólinn. Sigg Pól eiginkona Túlla skenkti þeim rótsterkt kaffi í fant og þeir settu sitt hvorn leirpottinn af Sjeniver á gólfið við hliðina á sér  og drukku af stút með kaffinu.

 

Baldi bróðir sá um mig og kynnti mig fyrir sínum áhugaefnum á meðan bræðurnir ræddu lífsins gagn og nauðsynjar. Þegar líða fór á daginn fóru þeir bræðurnir að syngja saman. Luis Prima, Dean Martin og Frank Sinatra voru uppáhalds stjörnurnar. Túlli tók mig gjarnan í fangið og söng fyrir mig, Oh Marie, Buona Sera, Pennies from Haven og aðrar perlur. Túlli var í mínum huga besti söngvari í heimi. Hann hafði útlitið með sér og var bæði líkur  Dean og Prima. Krullað svart hár og flottur karl. Hann söng einsog engill. Maður fékk þessar perlur beint í æð og lögin sem þeir tóku eru enn mín uppáhaldslög. Þetta fékk Björgvin beint í æð frá fæðingu. Baldi bróðir var líka liðtækur hljómlistarmaður þó hann hafi svo valið sér annað ævistarf en tónlistina, fór aðrar leiðir á menningarbrautinni. Þessir tíma úr æsku eru bestu minningar sem ég á og hafa ætíð verið mér dýrmætar.

 

Þegar togarinn Óli Garðar slitnaði upp frá höfninni í Hafnarfirði og strandaði í Nauthólsvík þá fórum við strákar úr Hlíðunum og skoða aðstæður og fundum slatta af 78 snúninga plötum sem Túlli og Bósi höfðu átt og geymt í skipinu. Þeir áttu mikið safn af fágætu plötum sem báru merki þess hversu mikinn áhuga þeir höfðu á tónlistinni.

 

Það er svo margs að minnast í samskiptum okkar Björgvins sem kemur uppí hugann þegar ég sit hér einn með sjálfum mér að morgni afmælisdagsins og hugsa heim með söknuði. Ætla samt í tilefni dagsins að rifja upp nokkur atriði í mínum ógleymanlegu samskiptum við frænda. Það er ekki alltaf að frændur verði jafngóðir vinir og við erum. Okkar á milli heiðrum við minningu feðra okkar með því að kalla hvorn annan Túlla og Bósa. En það er prívat mál sem mér þykir samt mjög vænt um.

 

Þegar Björvin byrjaði að syngja með Bendix í Hafnarfirði, þá var ég byrjaður að vinna á Mogganum í auglýsingadeildinni en tók jafnframt að mér að halda úti unglingsíðu. Hafði allaf haft þennan gríðarlega áhuga á tónlist og tengdist tónlistarlífinu með því að efna til dansleikja og tónleika af fullum krafti. Flytja inn hljómsveitir og gerðist umboðsmaður í hlutastarfi. Þá tók ég  fyrsta viðtal sem tekið var í fjölmiðli við frænda eftir að hafa farið á æfingu hjá hljómsveitinni hans. Varð mjög heillaður og sá þá strax að hann var einsog snýttur út úr nefi föður síns. Ég varð mjög hrifinn af frænda, ekki bara vegna frændseminnar, og minnir að ég hafi sagt eitthvað á þá leið að hann væri efnilegur söngavari sem ætti eftir að láta mikið að sér kveða í framtíðinni. "Síðan eru liðin mörg ár!"

 

Næsta var að við rákumst hvor á annan í tónlistarlífinu og á skemmtistöðum sem við stunduðum af fullum krafti. Eitt skipti sem oftar barst í tal á milli okkar söngsnilld Túlla og Bósa. Við settum okkur markmið, það var að fá Túlla til að hljóðrita lag með honum áður en það yrði um seinan. Hann sá strax að það yrði strembið, karlinn .þrjóskur on fengist aldrei til þess.  Genin í okkur eru samt þau að við þolum illa að gefast upp. Við settum því upp plan.

 

Planið var að taka upp alla tónlista grunnana og fá svo Túlla til að koma í Hljóðrita að nóttu til og syngja lagið. Litla flugan varð fyrir valinu því Haddi föðurbróðir okkar hafði kennt mér að spila það á píanó og lagið auk þess í miklu uppáhaldi bræðranna. Allt var gert, allt klárt. En staðreyndin kom í ljós, Túlli fer ekki í hljóðver. Nú voru því góð ráð dýr. Við frændurnir mættum í hljóðverið um nótt.  Búið að hljóðrita kórinn og hljómlistina. Þá varð Björgvin að syngja einsog hann gæti ímyndað sér að Túlli hefði sungið þetta með Frank Sinatra ívafi. Hann setti upp Battersby hatt og sat á barstól og söng Litlu Fluguna. Þannig hefur þetta fallega lag varðveitts með þjóðinni, en er lagið hans Túlla.

 

En þá kom að því hvað skyldi gera við lagið og þessa frábæru upptöku. Um þetta leiti fagnaði Knattspyrnufélagið Valur  80 ára afmæli og við Valsmenn vildum gefa út plötu með Valsöngvum sem ekki hafði verið gert áður. Búið var að velja þrjú Vals lög á plötuna sem Björgvin var okkur innan handar með að setja saman ásamt frábærum tólistarmönnum og okkur  félögum í Val sem sungu milliraddir. Til að platan myndi höfða líka til almennings þá ákváðum við frændurnir að setja Fluguna á plötuna enda lagið eftir hinn sanna Valsmann Sigfús Halldórsson.

 

Annað lag sem fjölskyldunni var ávallt hugleikið er Í Fjarlægð. Björgvin söng það inn til að það varðveittist meðal þjóðarinnar og er yfirleitt leikið í jarðarförum fjölskyldunnar . Einstaklega fallegur texti og unaðslegt lag.

 

Síðan lágu leiðir okkar saman þegar Lólí Blú Bojis komu saman. Það var enn eitt af snilldarverkum vinanna í tónlistarheiminum.. Við skipulögðum sama einhverja eftirminnilegustu hljómleikaferð sem farin hafði verið. Troðfylltum alla staði sem voru heimsóttir að meðtöldum tónleikum í Búðardal sem verður öllum sem viðstaddri voru ógleymanlegir. Þetta var fyrsta tónleikaferðin sem var svona einsog Björgvin sagði svo snilldarlega, “svona einsog erlendis”. Þetta var ferðin með Halla, Ladda og Gísla Rúnari en  þeir félagar voru nýbúnir að gefa út plötuna Látum sem ekkert C. Grín aldarinnar.

 

Frá þessum tíma fórum við svo í ferð með Brimkló “svona erlendis” ferð. Vinátta okkar varð meiri og samskiptin enn fjölbreyttari. Hann og Gunnar Þórðarson hljóðrituðu Vísnaplöturnar sem voru tímamót í íslenskri tónlistarsögu. Uppúr því kynntust þeir Kristján Jóhannsson og unnu saman við upptökur í London sem var stórkostleg og góð ferð tveggja listamanna sem var einkar eftirminnilegt tímabil.

 

Ekki má svo gleyma samstarfi okkar með sameiginlegum vini okkar Óla Laufdal Þar tókum við á móti fjölda erlendra listamanna sem komu reglulega fram í Hollywood og svo Broadway. Þar lék okkar maður á alls oddi með Fats Domino, Jerry Lee Lewis, Tom Jones svo einhverjir séu nefndir.

 

Við stóðum svo fyrir Íslandskynningum í London hjá vini okkar Peter Stringfellow eiganda Hippodrom diskótekinu. Þar var kynnt íslensk tónlist undir stjórn Björgvins. Tískusýningar og allt í gangi.

 

Það var svo eitt af fjölmörgum eftirminnlegustu viðburðunum af mörgum góðum en það var þegar hann söng með Rod Stewart á sviðinu í Broadway í tilefni Fegurðarsamkeppni Íslands. Aðdragandinn var sá að ég hafði kynnst vinum Rod í London. Vissi af hans áhuga á knattspyrnu og einkum Skoska Landsliðinu  Við Dóri í Henson höfðum tekið að okkur að auglýsa og kynna landsleiki með nýstárlegum hætti með bílasýningum, tónleikum fallhlífarstökkvurum og ýmsum atburðum sem settu nýja umgjörð um landsleiki í þeim tilgangi að fá sem flesta áhorfendur á leikina og skemmta fólki og leikmönnum. Okkur datt þá í hug í samvinnu við Flugleiði að reyna að fá Rod til að vera gestur okkar á leik Íslands og Skotlands 1985. Auk  þess að halda Fegurðarsamkeppni Íslands annan í Hvítasunnu sem var daginn fyrir leikinn. Með þeim hætti gæti Rod líka verið heiðursgestur á keppninni. Ástkona Rod þá var fyrirsætan Kelly Emberg og myndi þetta því alveg smella saman.

 

Það sem kom svo hvað mest á óvart var að vinur Rods hringdi í mig og sagði mér þau gleðitíðindi að Rod vildi þiggja boðið ásamt kærustuni, vini sínum og frænda. Úps!  Tækifæri sem við urðum að nýta vel. Rod var sagður vera erfiður í umgengni og dyntóttur. Það var því ákveðið að ég færi með Flugleiðum  út og tæki á móti honum í London. Myndi reyna að nálgast hann á leiðinni til baka. Kynnast honum eða finna út hvað við gætum boðið stjörnunni uppá.

 

Allt var þetta hið mesta ævintýri en það sem stóð uppúr var að fá Rod til að syngja á Broadway. Ég fékk frænda í heimsókn til mín og spurði hann hvort hann væri ekki til í að fá Gunna Þórðar með sér og setja út lagasyrpu með lögum Rods og hann myndi syngja fyrir goðið á ballinu. Hann sagði er ekki allt í lagi með þig?  Ég sagði ef þetta verður vel gert og fullkomlega boðlegt fyrir goðið þá væri aldrei að vita. Hann var mjög tregur til en sagði ég get ekki verið að syngja lögin hans Rod fyrir Rod. Er alveg til í að syngja bara mín lög og mitt prógram. En að endingu náðum við sáttum. Svo settum við saman lævíslega atburðarás sem endaði með því að aumingja Rod var allt í einu kominn uppá svið. hafði misskilið kynningu á sjálfum sér. Þá steig frændi á svið og byrjaði að syngja lögin hans. Rod varð mjög vandræðalegur og sá að hann var bara kominn í bobba .En sem sönnum listamanni lét hann ekki slá sig útaf laginu, greip  næsta míkrófón og byrjaði að syngja með Bó og plottið gekk upp fullkomlega. Með okkur og Rod tókst hin besta vinátta og við áttum ótrúlega skemmtilegt kvöld saman í góðra vina hópi.

 

Daginn eftir sagð ég Rod frá plottinu, kunni ekki við annað. Hann hló mikið og hafði gaman að og sagðist aldrei hafa lent í því að hafa verið plataður svona illilega en ánægjulegt þrátt fyrir allt. Hann skemmti sér konunglega og sagðist hafa haft einstaklega gaman að syngja með frænda á svona flottri uppákomu.

 

Þetta eru bara örfá dæmi af samskiptum okkar vinanna, bara gleði og gaman. En að baki hvers manns er einkalíf. Þar hefur frændi verið mikill gæfumaður. Eiginkona hans Ragnheiður sem er bæði "Litfríð og ljóshærð" hefur staðið einsog klettur á bak við hann. Lætur ekki mikið fyrir sér fara en traust. þau eru frábær hjón. Ólík um margt, en heilsteypt sem bjarg. Krakkarnir Svala og Krummi frábærir listamenn og Sigga Pól mamma getur verið stolt af drengnum sínum sem valdi sér það hlutskipti í lífinu að skemmta fólki. Þvílík skemmtun sem hann hefur veitt okkur öllum. Þau hjónin standa þétt með börnunum sínum og njóta velgengni þeirra.

 

En hvað er það sem heldur Túlla síungum og hvernig heldur hann sínum miklu vinsældum meðal íslendinga? Já hvað skyldi það vera? Hann er trúr þjóð sinni, hann er með fullkomnunar áráttu. Björgvin er Hafnfirðingur og Hafnarfjörður er svo sannarlega ekki "Lonesome Town" með frænda. Hann er Forseti Hanfarfjarðar. Hann sendir ekkert frá sér nema það sé fullkomið. Stundum gengur hann fram af fólki með þessari áráttu. En allir sem kynnst hafa meta svo mikils í hans fari. Það er nefnilega þannig farið með menn, sem gera gríðarlega miklar kröfur til sjálfs sín, gera líka kröfur til annarra. Fyrir það hafa menn talið að hann sé hrokafullur. En það eru bæði himinn og jörð frá því að Björgvin sé hrokafullur. Hann er umburðarlyndur,  þolinmóður, fjölskylduvænn og hógvær gleðigjafi sem nýtur þess að gefa af sér, gefa af sér allt sem hann mögulega getur. Þegar fólk gleðst þá verður hann glaður. Hann hefur aldrei ekið "Gullvagninum". Hann er "Bolur inn við bein".

 

Hann frændi nýtur þess að vinna með ungu fólki. Já, "Ég er að tala um þig", frændi. Miðla af sér til annarra, þessvegna hefur svokallað kynslóðabil aldrei truflað hann nema síður séð. Hann nýtur þess að vera á sviði og syngja með ungu upprennandi fólki, kynslóðinni sem tekur við. Hann er opinn fyrir öllu, spáir í allt og fylgist betur með tækninni og nýjungum meira jafnvel en hörðustu tölvu gúrúar. Þar kemur maður aldrei að tómum kofunum, ó nei, ó nei.

 

Það að elska þjóð sína er góð ást og heilsteypt. Þannig verða menn jarðbundnir og tengjast með því uppruna sínum. Hann fékk þá frábæru hugmynd að endurvekja allar helstu tónlistarperlur þjóðarinnar og byrjaði að gefa út Íslandslög. Þar með fékk hann til liðs við sig fjölda tónlistarmanna og kvenna og hefur haldið áfram útgáfunni með þessum perlum sem enn er á dagskrá. "Það búa ýmis öfl í þér frændi", sem betur fer fyrir okkur öll vini þína.

 

Björgvin Helgi Halldórsson er sannur dýravinur, hann elskar öll dýrin í skóginum. Þegar dóttir mín eignaðist hund um daginn þá spurði hún frænda hvort hún mætti skíra hundinn í höfuðið á honum? Hann hélt það nú, ekki spurning. Hundurinn heitir Bó!

 

"Höfðingi" og "Þó líði ár og öld" þá mun ég ætíð meta þig fyrir okkar góðu vináttu, traust og  ef ég ætti "Eina ósk" þá vildi ég helst af öllu vera með ykkur í dag. "Ég lifi því í draumi" í dag en veit að "Það er ekkert mál" því við munum halda uppá afmælið þar sem "Hamingja" mun svífa yfir vötnum og "Ég kominn heim". Þá munum við Túlli og Bósi fá okkur rótsterkt kaffi og sjenna með, taka lagið og fá okkur "Smók, smók og smók"  "Það kemur nótt eftir dag!"

 

Eigðu góðan dag í faðmi vina og fjölskyldu.

 

 "Ég bið að heilsa"  " Í Fjarlægð"

 


Þakkargjörðarhátíðin

 Þakkargjörðarhátíðin í Bandaríkjunum er í dag 25 nóvember en hún  er ein allra mesta hátíð landsmanna. Þá ferðast flestir, eða yfir 40 milljónir manna, til ástvina og fjölskyldna. Þá hefst hin hefðbundna jólaverslun og væntingavísitalan reiknuð út miðað við  innkaup þessarar helgar.Það eru fleiri sem taka þátt í þessari hátíð en sjálfum jólunum. Almenn matarinnkaup eru meiri í tilefni þessarar hátíðar og er það kalkúunakjötið sem er langmest áberandi. 

Ég hef reynt að nota dagana í aðdraganda þessarar hátíða til að þakka viðskiptavinum okkar og vinum fyrir stuðning við okkar málefni og vináttu. Það hefur verið hefð undanfarin ár að efna til mótttöku í samvinnu við Sendiherra Íslands hér í Washington sem hafa ásamt eiginkonum sínum tekið á móti vinum okkar með glæsibrag.

 Vegna fjárhagsörðugleika hefur ekki verið unnt að efna til þessara þakkagjörðar undanfarin tvö ár en nú varð að halda hátíðina og reyna að finna leið til að gera það á sómasamlegan hátt. Það varð því úr að Sendiherrahjónin Hjálmar W. Hannesson  og Anna Birgis tóku á móti gestum okkar á heimili sínu miðvikudaginn 17 nóvember og gerðu það með glæsibrag.

 Á næsta ári mun sælkera hátíðin Food and Fun halda uppá 10 ára afmæli heima á Íslandi. Í tilefni hennar var því ákveðið að fá þá matreiðlsumeistara sem komið hafa til Íslands frá þessari miklu sælkeraborg Washington til að taka þátt í því með okkur að fagna þessum áfanga. Allir sem komið hafa heim héðan voru boðnir og búnir til að taka þátt í hátíðinni og gerðu það með því að koma með mat frá sínum eigin veitigahúsum hér í borginni. Þannig sparaðist umtalsverður peningur og um leið varð hlaðborðið mjög fjölbreytt og glæsilegt. Já neyðin kennir naktri konu að spinna. 

Auk hinna fjölbreyttu rétta frá vinum okkar hér í Washington útbjó Siggi Hall glæsilega íslenska rétti sem vöktu athygli einsog ávallt. Það voru góðir vinir sem mættu í boðið ásamt hinum snjöllu matreiðslumeisturum frá veitingahúsunum, DC Coast, Marcel´s, Bistro Bis, Vidalia, RIS, Blue Duck Tavern, Ceiba, Passion Fish, Brasserie Beck´s, Acadiana, KAZ Bistro og Mesa 14.

Þá var boðið blaðamönnum sem þótti mikið til þess koma að hitta alla þessa matreiðslumeistara saman í boðinu og hafa þegar birts greinar um boðið Auk þess mætti framkvæmdastjóri Samtaka veitingahúsa ásamt starfsfólki samtakanna og síðast en ekki síst mætti aðal forstjóri og hans fólk frá Whole Foods Markets sem unnið hafa afrek  með íslensk matvæli og lagt grunn að velgengni þeirra hér í Bandaríkjunum.

Það er nú ekki á hverjum degi að svona góður hópur sannra sæklkera mæti í boð af þessu tagi og gladdi það okkur mjög svo mikið að þau sýndu okkur stuðning og velvilja með nærveru sinni. Það var einkar ánægjulegt að fá bændahjónin og fromann Landssamtaka Sauðfjárbænda Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson og eiginkonu hans Kristínu þessi glæsilegu ungu hjón í heimsókn til að hitta vini sína hér og taka þátt í kynningu á lambakjötinu ásamt Sigga Hall. Salan á kjötinu hefur rúmlega tvöfaldast á þessu ári og er nú ekkert sem kemur í veg fyrir frekari vöxt á næstu árum. Þá eru verðin sem fást fyrir kjötið hér umtalsvert hærri en á heimamarkaði hvað þá öðrum útflutningsmörkuðum.

Þessu fólki var þakkað innilega fyrir veittan stuðning og vináttu auk þess sem Sendiherrann flutti þeim kveðjur að heiman og sagði meðal annars frá því að frá og með næsta vori muni Icelandair hefja beint flug frá Íslandi til Washington sem gladdi viðstadda mikið. 


Hamingjuóskir

Til hamingju með þennan glæsilega árangur. Það hefur ekki vafist fyrir mér gæði íslenskra matreiðslumeistara, þeir eru upp til hópa ástríðufullir og hafa brennandi áhuga fyrir faginu. Það hefur veitt mér mikla ánægju að fá að vinna með mörgum af þessum meisturum í tengslum við Food and Fun hátíðina og svo hafa nokkrir þeirra komið að kynningu á okkar frábæra hráefni í verslunum og veitingahúsum hér í Bandaríkjunum og allstaðar vakið hrifningu.

Það er mér samt alltaf hulin ráðgáta hversu fáir gera sér grein fyrir mikilvægi þess fyrir ferðaþjónustuna og landið allt að við getum boðið uppá hreinan, ómengaðan mat á veitingahúsum og nýtt okkur það frábæra hráefni sem sjómenn og bændur framleiða og sannir meistarar matreiðslunnar bjóða í veitingahúsum um land allt. Það er það eina sem allir ferðamenn eiga sameiginlegt og það er að borða. Maturinn er því grundvöllur góðrar ferðaþjónustu einsog allir málsmetandi menn vita.

Við erum lánsöm þjóð sem á náttúruauðlindir sem vekja hvarvetna verðuga athygli og því kominn tími til að maturinn okkar verði leiðandi í kynningu á landinu fagra. Til hamingju aftur með þennan glæsta árangur, vonandi vakna menn fljótlega til vitundar um ykkar mikilvægu störf og framlag til þjóðarinnar allrar!

 


mbl.is Kokkalandsliðið í 7. sæti heimslistans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástríðan skilar árangri

 

Mér er það bæði  ljúft og skilt að deila reynslu minni, samböndum  og þekkingu á næstu misserum með fólki sem tekur við mínu starfi þegar þar að kemur. Þetta hefur kostað mikla vinnu og yfirlegu en á móti kemur mikil þekking og reynsla í samskiptum við stofnanir og fyrirtæki sem og tæknilegar hindranir svo sem tollyfirvöld, flutningsfyrirtæki og ýmislegt af þessu tagi. Þetta eru nú hluti af þeim verðmætum sem spara munum mönnum jafnt tíma sem og peninga hugi menn á útflutning, markaðssetningu og sölu afurða á Bandarískan markað.

 

Auk þess hefur starfið veitt mér mikla ánægju og gleði og sannað, allavega fyrir mér sjálfum að með óbilandi trú, ástríðu, vinnu og þolinmæði má flytja fjöll. Fyrir það er ég þakklátur öllum þeim sem höfðu trú á því sem hér hefur áunnist og opnað ýmsa möguleika til áframhaldandi uppbyggingu fyrir land og þjóð.

 

Bandaríkin eru land samkeppninnar, hér er til gnægð alls sem hugurinn girnist. Fólk sem hér býr nýtur ekki sömu kjara og við eigum að venjast hvað varðar vinnutíma. Hér vinna menn allt að 60 stunda vinnuviku og jafnvel meir þeir sem ná miklum árangri. Hér verða menn að svara fyrirspurnum mjög hratt og vel því ef menn gera það ekki þá eru margir aðrir kostir í stöðunni. Það tekur því tíma að öðlast trúverðugleika og traust viðskiptavina og það traust munu menn njóta þegar því hefur verið náð.

 

Almennur fjöldi frídaga eru 13 dagar á ári en ekki nema um 10% þjóðarinnar nýtir þá alla. Þetta er því land sem er svo frábrugðið okkar lífstíl en að sama skapi finnst mér að þeir sem ég á hvað mest samskipti við séu drifnir áfram af metnaði og ástríðu fyrir því sem fólk vinnur við. Þetta eru siðir þessarar þjóðar og því afar mikilvægt að bera virðingur fyrir þessari viðskiptamenningu og aðlagast henni annars eiga menn mjög takmarkaða möguleika.

   

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldvin Jónsson

Höfundur

Baldvin Jónsson
Baldvin Jónsson
Áhugamaður um landið og miðin
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • JF2 4515
  • Baldvin RAMW
  • ...j_vcapitol2
  • ...bj_vcapitol
  • ...bj_capitol

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband