27.5.2011 | 14:48
Metnaður er mikilvægur
Í tilefni komu Icelandair til Washington var talsvert mikið fjallað um landið okkar fagra í fjölmiðlum og þó nokkuð af auglýsingum í borginni frá félaginu. Þegar svona tækifæri bjóðast er um að gera að nýta þau. Því var ákveðið að leita til Sigga Hall og fá hann til borgarinnar enda erum við Siggi að vinna að undirbúningi hinna Norrænu daga hér í borginni. Auk móttökuathafnarinnar á flugvellinum buðu sendiherrahjónin hér í Washington, Hjálmar og Anna, í samvinnu við Icelandair til móttöku í Sendiherrabústaðnum miðvikudaginn 18 maí.
Þar mættu frammáfólk í ferða og útflutningsgreinum á Íslandi ásamt fjölmiðla-og ferðamála fólki hér í borginni. Metnaður sendiherrahjónanna er ekki síðri en Icelandair manna. Því var ákveðið að setja upp allt það besta í matvælum sem þjóðin hefur uppá að bjóða og bera það fram fyrir um það bil 90 gesti.
Siggi með dyggri aðstoð starfsfólks hússins og sendiherrafrúnni eldaði dýrindis mat á þjóðlegan hátt. Svo þjóðlegan að sumir fengu heimþrá. Á borðinu mátti sjá fjölbreytta fiskrétti, gratíneraða, pönnusteikta og soðna. Reyktan lax og bleikju, kótelettur, lambakjötsúpu, steikt lambalæri að hætti ömmu, rauðkál og rauðbeður, grænar baunir, skyr, osta og súkkulaði. Aldeilis glæsilegt og svo má ekki gleyma síldinni og rúgbrauðinu sem sendiherrafrúin er orðin þekkt fyrir. Það var mikill metnaður sem lá að baki þessu glæsilega hlaðborði enda tók fólk vel til matarins.
Það var gaman að taka þátt í þessum viðburði og finna hvað við íslendingar erum stolt af landinu okkar og þjóð. Allir sem komu að þessu boði og voru á öllum aldri nutu þess svo sannarlega að koma á framfæri öllu því sem íslenskt er og gerðu það með bros á vör.
Í upphafi bauð sendiherrann gesti velkomna á heimilið, það er alltaf jafn notalegt
að koma þangað og gestrisnin í fyrirrúmi. Þá talaði Birkir Hólm forstjóri Icelandair og fór fögrum orðum um land vort og þjóð, síðan talaði ferðamálastjóri Washington borgar og fagnaði komu Íslendinga og óskaði þeim velfarnaðar enda hagsmunir beggja í húfi. Að lokum talaði svo Össur Skarphéðinsson Utanríksráðherra beint frá hjartanu um land og þjóð af miklum eldmóð og ástríðu.
Fyrr þennan sama dag höfðu gestir Icelandair farið í kynningarferð um borgina en fæstir höfðu komið hingað áður. Voru allir sammála um að borgin hefði komið á óvart og þeir mjög ánægðir með það sem fyrir augu bar.
Á fimmtudeginum var svo staðið að matvælakynningu í verslun Whole Foods þar sem Siggi Hall og Lauren Gordon, sem meðal annar vinnur að kynningu og innflutningi á okkar afurðum, kynntu osta, skyr, súkkulaði og hvernig íslenska smjörið er er nýtt til steikingar enda eitt besta smjör sem völ er á. Nokkrir landa heimsóttu búðina en um 400 manns fengu að smakka sælkeramatinn okkar.
Ég verð að viðurkenna að það gladdi mig mjög að finna þenna mikla áhuga sem Washingtonbúar sýna landinu okkar og afurðunum. Það er líka sérlega gaman að vinna með fólki sem hefur brennandi ástríðu fyrir verkefnum sem snúa að hagsmunum þjóðarinnar. Það vantar svo sannarlega meira af slíku fólki. Þeir sem gera alltaf aðeins meira en þeir þurfa er fólk að mínu skapi. Að leita sífellt nýrra tækifæra til að auka hagvöxt og afkomu þjóðarinnar er mikilvægt alltaf og ekki síst á tímum sem nú. Það er betra að gera eitthvað en ekki neitt. Að halda áfram getur leitt til þess að menn geri mistök, en þau má alltaf leiðrétta, En að gera ekki neitt, ekki einusinni mistök, endar bara með ósköpum. Það ber að þakka öllum þeim sem sýndu í síðustu viku landinu okkar þá virðingu sem landinu ber, Þakka öllum fyri gott og sérlega ánægjulegt samstarf. Lifi Ísland.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Um bloggið
Baldvin Jónsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.