23.5.2008 | 13:57
New York og Washington
Síðasta vika hefur verið nokkuð sérstök. Félagi Siggi Hall fór heim til Íslands á föstudaginn var frá New York. Við vorum búnir að ákveða að fara til borgarinnar á fimmtudegi og hitta félaga okkar í veitingahúsabransunum um kvöldið. Þegar ég fór að skoða hótel þessa einu nótt þá kom í ljós að öll hótel voru á uppsprengdu verði. Það er svo einkennilegt með borgina, sem er reyndar ein af mínum uppáhaldsborgum, að verð á hótelum getur rokið upp einn daginn og niður þann næsta. Þar gildir ekkert annað en framboð og eftirspurn frá degi til dags. Maður getur td.lent í því að fá hótel eina nótt fyrir $ 169 og næstu nótt í sama herbergi fyrir $ 389.
Við ákváðum því að sleppa því að sofa á hóteli og tókum lestina, troðfulla af fólki, héðan frá Washington kl. 6 um morguninn og frestuðum fundi með veitingahúsamönnunum þar til síðar, en fórum að hitta ritstjóra eins af matartímaritunum hér í Bandaríkjunum, en sá hafði einmitt komið heim á Food and Fun í febrúar. Hann féll alveg fyrir hátíðinni og matnum heima. Hann er nú að skrifa grein um upplifun sína sem verður væntanlega birt nú í sumar. Þá hafði hann einnig áhuga fyrir samstarfsverkefni Norðurlandanna, Ny Nordisk Mad og Norrænu Matarkynningunni sem var kynnt í VOX, Norræna Húsinu og í Bláa Lóninu á Food and Fun dögunum.
Þetta var mjög áhugaverður fundur sem stóð í 3 klukkutíma. Þar var meðal annars rætt um aðkomu þessa góða útgáfufyrirtækis að Food and Fnu á næsta ári. Í skrifstofubyggingu útgáfufyrirtækisins sem hýsir einnig hið stórskemmtilega blað Wine Spectator var mikið og merkilegt safn vína sem Siggi kunni vel skil á og fór smá tími í að spjalla um vínmenningu þjóða sem er eitt af áhugamálum Sigga og hann vel að sér í þeim ágæta málaflokki.
Þennan dag var ofsa rigning í borginni og þá er nú ekkert sérstaklega gaman að vera á ferli. Mjög erfitt að fá leigubíla og besta leiðin að fara með neðanjarðarlestinni á milli staða. Á gangstéttunum eru allri með regnhlíf þannig að það er ekki mikið pláss fyrir vegfarendur og allir mjög pirraðir og hálf fúlir. Ekkert sérstakt að vera í borginni á rignigardegi.
Ég fór svo á fund með markaðsfólki matvöruverslunarinnar sem kaupir af okkur matvæli ásamt fulltrúa frá fisksölufyrirtæki að heiman. Þar var rætt um kaup búðanna í auknu mæli á fiski frá Íslandi um leið og rætt var um markaðssetningu á íslenskum matvörum í búðunum á komandi mánuðum. Er nú meðal annars stefnt að íslandsdögum í borginni í september, með svipuðu sniði og gert verður hér í Washington í lok næsta mánaðar.
Siggi fór svo heim til Íslands um kvöldið og ég náði kvöldlest til Washington. En ferðin með lest á milli New York og Washington tekur ekki nema um tvo tíma og fjörtíu og fimm mínútur. Ég keypti mér nokkur tímarít til að lesa á leiðinni og viti menn, enn eina ferðina verið að tala um Ísland í bæði Time og National Geographic Travel. Í Time var heilsíðu grein og glæsileg mynd af Magga Scheving með flotta gulrót í munninum einsog vindill. Greinin fjallar um fumkvöðla og Magnús á forsíðu þessa efnis þar sem fjallað er um árangur Lazy Town við að berjast fyrir heilsusamlegu líferni. Mjög jákvæð grein og honum og hans fólki til sóma. Það er líka mjög gaman að sjá í öllum þessum greinum sem maður sér hér að mikið er fjallað um hollustu hreinleika og gæði á Íslandi. Orkumálin, sjávarútveg og landbúnað með jákvæðum hætti og virðist vera sem fjölmiðlar hrífist almennt af landi og ekki síst þjóð. En nánar um það síðar.
Þessi vika sem nú er að líða hefur líka verið nokkuð skemmtileg. Það er nú verið að ljúka sýningu allra vinsælustu framhaldsmyndaflokkanna í sjónvarpi svo sem American Idol, Dances with Stars, Boston Leagal osfrv. Þá er þetta tíminn sem vetraríþróttunum er að ljúka og sumaríþróttirnar að taka við. Og allt að gerast á sama tíma.
Karfan á fullri ferð og bendir ýmsilegt til þess að það verði gömlu erkifjendurnir LA Lakers og Boston Celtics sem leiki til úrslita. Þó gæti alveg eins farið að Detroit Pistons settu strik í reikninginn því þeir unnu Celtics í Boston í gær með 103 stigum gegn 97. Og það er ekki á allra færi að vinna Boston á heimavelli. En ég er eingilega viss um að Lakers vinna Spurs.
Knattspyrnan er komin í gang og sá ég leik um daginn á milli LA Galaxy og Dallas sem leikinn var í Los Angeles í miklum hita. Leikurinn var sýndur á spænsku mælandi sjóvarpsstöð sem er kannski ekkert skrítið því mér sýnist Suður Ameríkufólkið vera sá hópur sem mest sækir knattspyrnuleiki hér sem komið er. Þrátt fyrir það er mér sagt að sú íþrótt sem mest er stunduð í yngri bekkjum skóla sé knattspyrnan og því smá von um að Bandaríkjamenn fari að sinna þessari göfugu íþrótt meira í framtíðinni . Ég er ekki frá því að þetta hafi verið einn af betri leikjum sem ég hef séð Bandarískt lið spila, það er að segja Galaxy. Það bar svolítið á því að áhrifa Gullitts sé farið að gæta í leik liðsins og léku þeir mjög skemmtilega "flæðandi" knattspyrnu, Nú svo er hokký tímabilinu að ljúka, mikið af golfi komið í gang sem og kappakstur veðreiðar og hafnaboltinn..
Ég hef svo verið að heimsækja matvöruverslanir hér á svæðinu að lokinni vinnu. Heimsótt vini okkar í Whole Foods sem og samkeppnisaðila þeirra svo sem Traders Joe, Harris Teeter, Wegmans og Giants. Það var mjög gaman að hitta vini okkar og upplifa stemminguna sem nú ríkir í búðunum því framundan er Minningarhelgin eða Memorial Day Weekend. Það er fyrsta helgin sem almenningur leggst í ferðlög og grillar úti. Þessvegna voru allir með hamborgara á tilboðsverði. Hvarvetna mátti sjá skilti sem á stóð "Holiday Hamburgers for the Holiday weekend". Þetta er semsagt fyrsta fríhelgin í sumar og svona ákveðin tímamót veturs og sumars. Þessu tímabili lýkur svo með "Labor Day weekend" sem er fyrsti mánudagur í september.
Þessa helgi hér framundann í höfuðborginni Washington er gríðarlega mikið um að vera því flestir minisvarðar um fallna hermenn sem fólk vill sjá eru hér í borginni. Þar má nefna minnisvarðan um Seinni Heimstyrjöldina, Kóreu Stríðið, Vítenam stríðið og Helförina svo eitthvað sé nefnt. Hingað til borgarinnar streyma mótorhjólamenn og konur víðsvegar að og eyða helginni saman. Í fyrra fór ég og skoðaði þessa sérkennilegu en skemmtilegu uppákomu. Þarna voru saman komin, að því að talið er um 100.000 mótohjól, langflest Harley Davidson af öllum gerðum og stærðum. Lögreglan stýrir svo hópakstri sem, tekur um 5 klukkutíma og er sérlega glæsileg sýning.Þarna voru líka áberandi "gömlu" góðu hipparnir sem fyrir 40 árum stóðu við Hvíta Húsið að mótmæla stríðinu í Víetnam. Var allt sama fólkið og alveg einsog þeir voru 1968 nema 40 árum eldri. Hárið farið að grána og þynnast en taglið á sínum stað.
Allir í gallabuxum, einkennistákni þessarar kynslóðar, flestir með tattú en þau voru aðeins farin að láta á sjá. Þetta var virkilega eftirminnilegt þrátt fyrir að maður sé nú ekki sjálfur mótorhjóla sérfræðingur. Það blundar hinsvegar alltaf í manni draumurinn um að fara með nokkrum félögum á Harley og "krúsa" á Route 66. Það kitlar alltaf og ég öfunda þá sem það hafa gert. En hver veit?
Já en aftur að heimsókninni í búðirnar. Það sem virðist nú vera að gerast er að fólk er að passa uppá budduna hér einsog annarsstaðar enda eru Bandaríkjamenn mjög vel meðvitaðir um verð og fylgjast vel með. Þetta þjóðfélag er líka svo innstillt á fjármál og verðmyndun að það er aðdáunarvert. Þetta er líka sérlega vinnusöm þjóð einsog þeir vita sem kynnst hafa.
Þó virðist verð á matvælum hafa meiri áhrif á veitingastaði en verslunina. Fólk virðist fara minna út að borða en velur að gera betur við sig í mat á heimilinu. Ég skoðaði verð á afurðum hér sem eru í samkeppni við okkar afurðir en það er einkum Gríska jógúrtið sem er nokkuð líkt skyrinu bæði þykkt og tiltölulega lágt fituhutfall. Það kostar kr. 147 dósin þegar skyrið kostar kr. 207. Þá kostar osturinn Höfðingi kr. 363, smjörið kr. 258 svipað og Kerrygold frá Írlandi og Lurpak frá Danmörku sem talin hafa verið með mestu smjörgæðum sem völ er á en okkar smjör skotið sér uppí sama gæðaflokk að mati verslananna.
Þá kostar stykki af Nóa Síríus suðusúkkulaði kr.221, lítri af mjólk kr.96, kíló af lambahrygg frá Nýja Sjálandi kr. 2.766, læri frá sama landi kr. 1.138. Almennt verð á góðum ferskum fiski er svo um það bil frá kr. 1600 til 2400 kílóið og reyndar allt uppí kr. 4.000 á Alaska Laxi (King Salmon)
Bensínverðið í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að vera um helmingi lægra en heima á Íslandi, hefur gríðarleg áhrif á fólk hér. En það er meðal annars vegna þess að þetta samfélag byggir mikið uppá hraðbrautum og akstri. Það kæmi mér ekki á óvart að helmingur þeirra sem sækja vinnu daglega aki um 80 til 100 km á dag. Þeir sem búa á Reykjavíkursvæðinu aka líklega ekki nema um 20 km á dag til og frá vinnu. Áhrifin eru því mjög mikil og meiri en maður hafði gert sér grein fyrir.
Það kom fram í Washington Post í gær að 72% af bensín verðinu er innkaupsverð. 16% er álagning og dreifing og 12% er skattur. Man ekki hvernig þessu er háttað í Evrópu en held að skatturinn þar sé mun hærri. Það er því ekki svo mikið sem hið opinbera getur gert hér til að lækka verðið. í þessu landi.
En talandi um þetta land, land tækifæranna. Það er mjög sérkennilegt en um leið mjög gaman að finna fyrir því hvað vinnusemi hér er mikil og gríðarleg samkeppni á öllum sviðum. Allt er drifið áfram af markaðnum og samkeppni. Í morgun spjallaði ég við strák hér í Cariboo kaffishúsinu sem ég heimsæki á leið til vinnu. Hann var auðvitað mættur kl 6 í kaffihúsið en í gærkvöld sá ég hann í Whole Foods búð þar sem hann var að afgreiða. Ég spurði hann hvort hann væri í fullri vinnu á báðum stöðum? Hann sagði svo ekki ver. Væri bara frá 6 á morgnana til kl 2 á daginn í kaffihúsinu og svo frá kl. 3 í Whole Foods til kl 10 á kvöldin flesta virka daga. Hann er svo með námskeið í tölvunotkun um helgar og sagðist vinna svona um 70-80 stundir á viku. Þetta er nú líklega einum of mikið en svo þegar ég fór að velta þessu fyrir mér þá eru flestir þeir sem ég á samskipti við í matarbransnanum að vinna svona svipað. ca. 60 til 80 stundir á viku. Sumarleyfi eru svo frá einni og uppí tvær vikur á ári eftir því hvað fólk hefur unnið legni hjá vinnuveitenda.
Og talandi um samkeppni. Hér eru vinsælustu sjóvarpsþættirnir auðvitað íþróttir og á svipuðum slóðum í vinsælu skemmtiefni eru þættir um keppni. Keppni í söng, dansi, peningaspili, gáfum, þreki, styrk, málaferlum. Keppt um ástir piparsveina til stúlkna og svo nú það nýjasta að strákar keppast um hylli stúlkna. Keppni um frammistöðu í rekstri fyrirtækja, hver þori að taka mestu áhættuna osfrv. osfrv. Keppnin um áhorf stöðvanna er líka mikil og meira að segja veðurfræðingarnir taka þátt í því með sem "mest spennandi veðurspám"! Þá hefur þess einnig gætt í matreiðlsuþáttum Þar eru vinsælustu þættirnir þeir sem etja spennandi kokkum saman í keppni. Fjallar ekki mjög mikið um gæði frekar um hver sé fljótasur að elda?
Þetta er svo sannarlega enn land tækifæranna en samkeppnin sem aldrei fyrr.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Um bloggið
Baldvin Jónsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.