27.5.2008 | 15:04
Hvað er með ykkur þessa íslendinga?
Þetta sagði maður við mig í kaffhúsinu Cariboo í morgun. Hann var furða sig á því hvað það væri almennt svo mikil og jákvæð umræða í fjölmiðlum um Ísland og ýmislegt sem tengdist landi og þjóð. Þessi náungi, sem ég þekki í raun ekki mikið, var að vísa til viðtals sem var á einni af svæðisbundnu sjónvarpsstöðvunum hér í Washington á sunnudag.
Þetta var viðtal við framkvæmdastjóra Samtaka Veitingahúsa og tilefnið hin mikla hátíð sem samtökin standa fyrir hinn 29 júní næstkomandi. Þar fór framkvæmdastjórinn fögrum orðum um landið og afurðir þess. Nefndi einnig samskipti matreiðslumeistara borgarinnar við Food and Fun hátíðina. Á laugardag átti ég svo fund með aðstandendum hátíðarinnar og blaðafulltrúa. Þar voru ræddar ýmsar hugmyndir um hvernig mætti vekja enn frekar athygli á hátíðinni. Þar var ákveðið að fá þá meistara matargerðarlistarinnar sem tilnefndir hafa verið Matreiðlsumeistarar ársins til að koma saman næsta föstudag í Marcel´s veitingahúsinu til að borða íslenskan mat.
Þetta verða þeir: R.J: Cooper frá Vidalía, Todd Grey frá Equinox, Eric Ziebold frá CityZen, Robert Wiedmaier frá Marcel´s og Becks og síðast en ekki síst Michel Richard sem á Citronelle og Central en hann Michel, er núverandi handhafi titilsins Matreiðslumeistari Bandaríkjanna 2007-2008. Hann var valinn af James Beard stofnuninni í júní sl. Yfirkokkurinn á Marcels. og hans aðstoðarfólk munu elda úr fiski m.a.bleikju, lambalæri, skyri, nota ostana Höfðingja og Stóra Dímon, smjöri og nota suðusúkkulaði frá Noa/Siríus. Sunnudagurinn fór svo í að hitta kokkana og velja með þeim hráefnið og veita þeim upplýsingar fyrir ljósmyndara sem boðið verður til að hitta meistarana gæða sér á matnum okkar.
En aftur að ummælum félaga míns í kaffihúsinu. Ég fór að velta því fyri mér sem hann sagði vegna þess að ég hef heyrt svipuð ummæli frá kollegum mínum í matar og ferðabransanum svo sem vina okkar á Norðurlöndunum og fleirum. Það er líka alveg magnað hvað svona lítil þjóð, nánast örríki, fær mikla athygli. Ef við skoðum til dæmis það sem áður hefur komið um fjölmiðlaumfjöllun minni hér á blogginu þá má nefna nýkomna grein í Passport tímaritinu. Þar fjallar Andrew Mershman um heimsókn sína á Food and Fun sjá nánar á www.passportmagazine.com/worldeats/reykjavik
Skemmtileg grein sem vert er að skoða og lesa. Þá var það hin fína grein um Latabæ og Magnús í því útbreidda blaði TIME þar sem fjallað er um efni þáttanna og markmið þeirra. Síðan var það í National Geograhpic Traveller þar er fjallað um sjáfbæra ferðaþjónustu og þar kemur Ísland við sögu. Svo má sjá margar sjónvarpsauglýsingar sem greinilega eru teknar á Íslandi. Þá var í gangi auglýsing hér í vetur frá fasteignasölu sem sagði að þeir gætu meira að segja fundið húsnæði á Íslandi. Önnur er núna í gangi þar sem verið er að auglýsa ís og þar kemur fram setningin, " mér er sagt að það sé fallegt á Íslandi" eða "I am told that Iceland is nice".
Þá er það nokkuð reglulega að fjallað er um íslendinga í viðskiptalífinu. Koma oft myndir af mönnum einsog Jóni Ásgeiri, Björgúlfi Thor, Ólafi Jóhanni svo einhverjir séu nefndir. Svo auðvitað lista- mennirnir Björk, Sigurrós, Ólafur Egilsson, Arnaldur og svo framvegis. Svo hafa verið sýndir hér sjónvarpsþættir þar sem sagt er frá íslenskum mat og matarhefðum sem og áhugaverðum stöðum á landinu. Auk þess sér maður meir og meir fjallað um orkumálin. Ekki síst hefur þetta verið áberandi uppá síðkastið og talað um hina sjálfbæru orku sem við njótum.
Það er þó ein grein sem mér þótti afar gaman að lesa en það var grein John Carlin sem birtist í www.guardian.co.uk hinn 18 maí sl. John er mjög merkilegur og bráðskemmtilegur maður. Hann kom heim á Food and Fun og hefur auk þessarar greinar skrifað allnokkrar greinar um land og þjóð m.a. í El Pias eitt útbreiddasta spænsku mælandi blaðs í veröldinni. John er sannkallaður "Íslandsvinur". Hann nýtur þess vel að vera á eigin vegum, lætur lítið fyrir sér fara og hefur nokkrum sinnum komið til landsins. Hann sagði mér að líklega væri Ísland eitt besta land í veröldinni til að búa í. Hann sagði að það væri ekki aðeins að landið væri fallegt hann sagði mér líka að íbúarnir væru spennandi karakterar svona upp til hópa. Við ættum mikil verðmæti sem við yrðum að varðveita.
John sagð mér líka frá ævisögum sem hann hefur skrifað um, m.a. David Beckham og nú nýverið um Nelson Mandela, The Human Factor, sem ætlunin er að komi út í september nk. Hann sagði okkur Sigga Hall frá þeirri lífsreynslu að kynnast Nelson og kvikmyndinni sem nú hefur verið ákveðið að gera eftir bókinni. Sagði okkur frá því hvernig af fundi hans og Morgans Freemans varð. Mjög skemmtileg saga þar sem John var á ferðalagi í Bandaríkjunum og hitti fyrir tilviljun leikarann og sagði honum frá bókinni nýju. John sagði okkur að Milton hefði fallið fyrir handritinu, samþykkt að taka að sér aðalhlutverk í myndinni og hafði hann strax samband við Clint Eastwood, enn einn "íslandsvininn" og fékk hann til að taka að sér leikstjórn myndarinnar og Matt Damon í eitt af aðalhlutverkunum.
John hefur eignast marga góða vini á Íslandi og er mikill heiðursmaður og fínn félagi. Verður spennandi að fylgjast með framgani hans og bókinni nýju. Þessi grein í Guardian er virkilega góð og víða komið við en fyrirsögnin "No wonder Iceland has the happiest people on Earth" segir nokkuð um innihaldið.
Það verður hinsvegar ekki alltaf sagt að við séum ávallt mjög hamingjusöm. Þegar maður les blogg landans, sem ég reyndi að skoða aðeins áður en ég fór sjáfur að nota þessa tækni til að halda utanum það sem ég er að vinna við með smá persónlulegu ívafi, þá er nú ekki alltaf þessi mikla hamingja. Sumt af því sem þar er sagt er afar ósmekklegt og og til lítillar fyrirmyndar hverngi fólk talar stundum um hvert annað og ýmiss málefni. Það er nú ekki alltaf um málefnanlega umræðu að ræða og frekar óbilgjarna. En sem betur fer heyrir það til undantekninga.
Að framangreindu má sjá að við sem þjóð megum vel við una á í samfélagi þjóðanna. Það er tekið eftir litla landinu okkar og því sem þar fer fram. Langt umfram það sem margar, flestar, þjóðir geta státað að. Að langmestu leiti er umfjöllunin um landið og þjóðina í jákvæðum dúr. Það er tekið eftir því hvað okkur hefur farnast vel. Það er líka tekið eftir því hvernig okkur hefur tekist að viðhald tungunni, búfjárstofnum okkar, landinu hreinu, beislað orkuna, komið á stjórnun nýtanlegra náttúru auðlinda landsins og svo framvegis. Auðvitað eiga menn að takast á um áherslur en oftar þyrftu menn að gera það á málefnanlegri hátt en sumir hafa gert.
Auðvitað hvílir á okkar þjóð mikil ábyrgð, það er okkar skylda, í samfélagi þjóðanna, að viðhalda okkar stöðu, uppruna og menningu. Það eru þau skilaboð sem maður fær með allri þessari jákvæðu og oft á tíðum skemmtilegu greinum og efni þar sem fjallað er um okkur. Sumum okkar finnst við vera haldin of mikilli minnimáttarkennd. En er það nokkuð srítið, við erum jú mjög smá þjóð en flest með stórt hjarta!
Ætli við séum kannsi bara hamingjusamasta þjóð í heimi? Förum bara stundum vitlausu megin frammúr á morgnana.
Að lokum hefur það vakið athygli mína þessi ferð geymferjunnar til Mars. Þetta er auðvitað mikið vísindalegt afrek eða einsog einn vísindamaður hjá NASA lét hafa eftir sér til að vekja menn til vitundar um hversu mikið afrek þetta sé:
Þetta er svona svipað og að golfari slái kúluna sína frá teig í Washington og hún fari holu í höggi í Ástralíu!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Um bloggið
Baldvin Jónsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Algjör pjúra snilld svo maður sletti á amerísku sveita máli. Þakkir félagi fyrir innleggið frá þér......þegar öllu er á botninn hvolft þá ert þú sennilega holdgerfingur okkar Íslendinga í útlöndum með allan þennan frumkraft okkar og þor sem einkennir land og þjóð. Frábært blogg hjá þér gamli og virkilega gaman að fylgjast með.
Vinarkveðja, Ingvar
Ingvar Eyfjörð (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.