Um flugið og fleira

Mikið var það erfitt að horfa og hlusta á fréttir að heiman í gær um þennan mikla skjálfta. En sem betur fer höfum við aðlagast náttúruöflunum og haft vit á því  að byggja hús sem þola svona náttúruhamfarir.  Það hafa margir vinir mínir hér sent mér póst og samúðarkveðjur vegna jarðskjálftans.

Svo var þessi umdeildu mótmæli vörubílstjóra við Alþingishúsið sem vöktu athygli mína. Það er einsog olíuverðið sé eitthvert sértækt íslenskt vandamál. Hér í Bandaríkjunum sem og víðast hvar um heiminn er þetta eitt alvarlegasta ástand sem upp hefur komið , mér liggur við að segja kreppa, á Vesturlöndum  í áratugi.

Hér eru allar samgöngur í uppnámi. Vörubílstjórar að niðurlotum komnir, almenningur sem þarf að aka langar leiðir til og frá vinnu eyðir nú allt að kr. 60.000 á mánuði í bensín. Það er hér mjög hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum hins alenna borgar sem er með um kr. 420.000 á mánuði. Af því fer um kr. 80.000 í skatt, 70.000 í tryggingar, 100.000 í húsnæði, 60.000 í skóla og þá er ekki mikið eftir til að leggja fyrir til elliáranna. Hér bera menn sjálfir ábyrgð á ellilífeyri sínum og heilsuþjónustu. Það aukast því áhyggjur manna hér á hverjum degi.

Flugreksturinn er líka í uppnámi. Nýjustu fréttir á NBC sjóvarpsstöðinni  í gærkvöld voru ma um  um flugfélagið US Airways. Þeir hafa nú ákveðið að hætta að bjóða fólki uppá saltstengur um borð. Nú verður bara ein vatnsflaska í boði fyrir farþega á flugi.  Fréttamðurinn Brian Williams gat nú ekki annað en bætt svo við fréttina, að eftir því sem hann vissi best myndi enn vera boðið uppá sæti í vélum félagsins! Það kom þá strax uppí huga minn að nú hefði hugtakið í fluginu "stand-by" öðlast nýja merkingu.

Þetta leiðir hugann að þróun flugsins frá þeim tíma sem það tók um 8 klukkustundir að fljúga til New York frá Íslandi. Þá var flugið munaður og lögð áhersla á hátt þjónustustig, góðan mat, glæsilegt þjónustufólk og allt gert til að gera fólki flugið bærilegt og hafa ofan fyrir fólki. Þá var líka hægt að kaupa áfegng á sérlega lágu verði tollfrjálst, sérstaklega fyrir okkur íslendinga sem ávallt höfum  þurft að kaupa áfengi á hærra verði en nokkur önnur þjóð.. Flugið var því á þeim tíma bara oft eitt gott partý. Menn reyktu og drukku eftir matinn, sungu og spjölluðu. Menn fengu sér meira að segja einn eða jafnvel fleiri drykki kl. 5-6 á morgnana fyrir flug í gömlu flugstöðinni. Þetta var svo mikil upplifun og sjaldgæft að fólk kæmist til "útlanda." Það mátti því missa af neinu.

Það er mér alveg ljóst að án Loftleiða og Flugfélags Íslands á sínum tíma væri landið ekki statt þar sem við erum nú. Þessir framsýnu menn sem hófu flug til og frá Ameríku til Evrópu með millilendingu á Íslandi voru afreksmenn. Ég hitti reglulega fólk hér í Ameríku sem á  fagrar minngar frá "hippa" tímanum og  flugu með Icelandic ( Hippie Airline) til Evrópu. Það var partur af lífstíl þess tíma. Þá kostaði  $ 189 að fljúga frá Ameríku til Luxemborgar og stundum var boðið uppá stopp á Íslandi í sólarhring fyrir $ 40 með gistingu á Hótel Loftleiðum.

Í dag er ferðatíðin frá Íslandi ótrúlega mikil þrátt fyrir að við séum aðeins um 300.000 manns. Ég held ég fari með rétt mál að nú í sumar verði boðið uppá allt að 7 flug til Bandaríkjanna og Kanada á dag suma daga. Það er meira en flug frá öllum höfuðborgum Norðurlandanna samanlagt. Þetta er auðvitað einstakt og eiga þeir sem standa fyrir svona rekstri heiður skilið fyrir þennan mikla metnað sem staðið er að, við svona erfiðan rekstur einsog flugið er í dag.

Ég vona því svo sannarlega að mönnum takist vel við  að aðlagast þessum erfiðu tímum. Geri það í sem mestri sátt við viðskiptavini sína og hafi bolmang til að rétta úr kútnum þannig að við einangrumst ekki um of í hinu harða alþjóðlega umhverfi sem við búum við í dag. Ég óska þeim velfarnaðar.

Flugrekstur  er greinilega í heimunum öllum  á tímamótum vegna þess gríðarlega og óbilgjarna olíuverðs sem við stöndum nú frammi fyrir. Hér í Bandaríkjunum eru flugfélög á hverjum degi að tilkynna um breyttar flugleiðir. Niðurfellingu á flugi, skert þjónustu stig og svo framvegis. Það flugfélag sem er talið "best" rekna flugfélag hér er South West. Það er eitt af fyrstu lágfargjalda flugfélögum hér og ef ég man rétt gerðu hin stóru hefðbundnu flugfélög stólpa grín af þeim. Þessi sömu félög sem nú eru að glíma við mikinn vanda að leigja aðstöðu hjá South West sem ehfur greinilega meiri burði til að aðlagast erfiðum tímum en flestir hinna. Þegar þeir hófu rekstur breyttu þeir mörgum af þeim hefðum sem flugið hafði þróast í. Þeir breyttu sölu farseðla, buðu fólki ekki mat aðeins drykki og snakk. Bókuðu ekki fólk í sæti heldur buðu uppá að fyrsti koma fyrstir fá. Nú er reyndar meira um það ap fólk geti bókað sig í sæti á netinu.

Fleir flugfélög hafa bættst í þennan hóp. Nú eru Jet Blue, Air Tran og Virgina America svo ég nefni dæmi, að bjóða uppá betri flugvélar, meira rými á milli sæta og sjóvarpsafþreyingu en enginn að bjóða mat. Já engan mat. Mér finnst það vera einhver tímaskekkja hjá þeim flugfélögum sem eru að bjóða uppá mat í flugi. Mannskepnan er spendýr. Okkur var líka  aldrei ætlað að vera í 10 km hæð yfir yfirborði jarðar. Líkaminn á fullt í fangi með að aðlagast þeim þrýstingi sem þar er. Hvað þá að honum sé líka ætlað að borða og ég tali nú ekki um að drekka sig fullan. Það getur bara ekki verið rétt. Ég sjálfur lærði það á þeim tíma sem ég vann fyrir Miss World í London og fór tugi ferða á ári um heim allan. Þá ákvað ég að  hætta að borða og drekka um borð í flugi. Hvað gerðist, jú mér leið miklu betur eftir flug. Líkaminn allur hressari og engin bjúg á fótum né vanlíðan. Ég hef ekki borðað í flugi í mörg ár. Fæ mér frekar að borað fyrir flug og/eða eftir flug. Nú eru líka komnir fínir veitingastaðir á flesta flugvelli og af sem áður var.

Ég var svo að sjá rannsókn sem segir að það besta til að aðlagast breyttum tímabeltum sé að fasta í nokkurn tíma fyrir flug. Það er nefnilega þannig að það tekur líkama fólks ákveðin tíma að breyta líkamsklukkunni. Hversvegna þarf fólk líka að vera að borða í flugi. Ekki er borinn fram matur í langferðabílum sem jafnvel aka í 5-7 tíma til Akureyrar. Það væri þó betra en að borða á flugi.

Svo er það hitt að það er kostnaðarsamt og kannski bara heilsuspillandi að borða mat í flugi. Get svosem ekkert sannað það en hvet fólk til að reyna að vera án matar og sjá hvort þ´ví líði ekki betur eftir flug. Maturinn á sínum tíma var því hluti af þeirri afþreyjingu sem farþegum var boðið uppá en ekki af einhverri nauðsyn. Það eru 6 klukkutímar frá hádegi til kvölds þar sem flestir borða.  Er það eittvhað öðruvísi þegar fólk flýgur?Nú eru breyttir tímar og Icealndair bíður nú uppá fínt afþreyjingrfefni í vélum félagsins góð sæti og að mér skilst meira rými á milli sæta.

Við viðskiptavinir félagsins hljótum að leggja mesta áherslu á það að fá enn að ferðast til og frá landinu á sem hagstæðasta verði og taka þátt í því að bregðast við þeim erfiðleikum sem samgöngur almennt glíma við um þessar mundir. Við erum ekki sökudólgar í hækkun olíuverðs við erum fórnarlömb þessa ástands.

Nú er flugið almenningseign. Verð á farseðlum hefur farið  lækkandi og möguleikar til ferðalögum eru miklir og nánast sjálfsagður hlutur og þykir ekki mikið til þeirra koma lengur. Það er því mikilvægt að fólk setji sig í spor hvers annars þegar svona vandi blasir við Það á líka að vera skylda okkar að taka sameiginlega á svona vanda annars er voðinn vís.

Ég sá svo Lakers vinna Spurs í gær og þar með komnir í úrslit.. Mikið ofboðslega er Kobe góður leikmaður og hreinn listamðaur. Hann er í mínum huga einn allra fremsti íþróttamaður heimsins í dag. Nú vonar maður að Boston vinni í kvöld og þá verður það Celtics og Lakers sem leika um titilinn í ár. Það getur orðið mikil viðureign.

En svo er það kvöldið í kvöld. Þá hitti ég 5 fínustu kokkana í borginni í íslenskum kvöldverð sem Veitingahúsið Marcels býður uppá. Tilefnið er kynning á matnum okkar sem og hátíðarkvöldverðinum sem verður boðið uppá í lok júní. Þaðv erður gamna að hitta vinina, allt fínir karlar og frábærir matreiðlsumeistarar. Þrír þeirra hafa ma komið heim til Íslands á Food and Fun og elska landið okkar og ekki síður matinn. Við áttum eitt lambalæri heima í ískáp sem verður eldað uppá ömmuvísu. Lágan  hita og langan tíma. Borið fram með ýmsu góðgæti. Svona íslenskur heimilismatur.

 Svo fékk ég frábært símtal í morgun frá yfirkokki eins af allra vinsælustu veitingastöðum New York. Hann og yfirmaðurinn hafa verið að þreyfa sig áfram með  smjör, osta og skyr ásamt bleikju síðustu vikur. Þeir eru að fara að opna nýtt bakarí í borginni á næstunni og hafa komist að þeirra niðurstöðu að íslenska smjörið sé besta smjör í veröldinni í dag. Sérlega bragðgott, gott til eldunar og baksturs, fallegt að bera það fram. Nú vilja þeir  fyrir alla muni koma því á borð gesta sinna og bjóða það í nýja bakaríinu þegar það opnar. Æ það er alltaf gaman að fá svona ummæli um okkar góðu framleiðendur heima bændurna sjálfa. Það kitlar alltaf þó ég sé nú búinn að heyra þetta oft, þá fer alltaf um mann góð tilfinning og heldur manni við efnið.

En meira um það síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldvin Jónsson

Höfundur

Baldvin Jónsson
Baldvin Jónsson
Áhugamaður um landið og miðin
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • JF2 4515
  • Baldvin RAMW
  • ...j_vcapitol2
  • ...bj_vcapitol
  • ...bj_capitol

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband