Upplifun í Washington

Í gærkvöld var okkur boðið í brúðkaup til vina okkar, ungra hjóna sem vinna hjá og við verslunarkeðjuna Whole Food sem eru nánustu viðskiptavinir okkar. Að brúðkaupinu loknu þá náðum við í lok opnunarhátíðar nýs veitingahúss í eigu félaga  okkar hér.

Það sem ég hef aðallega verið að gera hér síðstu vikurnar, er að segja viðskiptavinum okkar hver staða Íslands er og stappa í menn stálinu. Sannfæra þá  um að Ísland sé ekki að fara "á hausinn". Fréttir almennt í þeim fjölmiðlum um Ísland hér í Bandaríkjunum  hafa verið ótrúlega víða og  jafnframt gríðarlega umfangsmiklar.

Bandaríkjamenn fá þó ekki andúð á okkur íslendingum vegna þessara atburða. Umfjöllunin hefur enda ekki verið með sama hætti og maður sér í Evrópu og hefur verið lýst í íslenskum fjölmiðlum. Það var í báðum þessum boðum sem ég hitti fólk sem ég hef ekki séð í nokkurn tíma. Í nánast öllum tilfellum var tekið utan um mann og manni tekið einsog maður væri risinn uppfrá dauðum.

Vinahót þessa fólks voru einlæg og samúð með okkur íslendingum fór ekki á milli mála og var fölskvalaus. Fólk hafði allflest skoðanir á þessum vanda og sumir báðu meira að segja afsökunar á því að húsbréfalánin frægu væru að hluta til upphaf þessa vandamáls sem við værum að glíma við.

 Aðrir óttuðust það að Rússar myndu "yfirtaka" vinaþjóðina í norðri. Undantekningarlaust, þá fór ekki á milli mála að fólk hafði áhyggjur vegna okkar og benti svo líka á það að það væri sorglegt að svona væri komið fyrir okkur og óskaði okkur öllum farsældar í þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir.

Ég benti á að á Íslandi væri nú staðan sú, að þjóðin þyrfti að líta aftur til uppruna síns og þeirra náttúrulegu auðlinda sem hún, þjóðin, ætti. Því mætti ekki gleyma. Þjóðin væri líka sterk þjóð sem hefði haldið uppi byggð með undraverðum hætti, á eyju uppvið heimskautsbaug, síðan árið 874. Það væri jú auðvitað afrek sem fáar þjóðir gætu státað af.

Nú væri því afar mikilvægt að styrkja viðskiptasamböndin sem þegar hefðu verið mynduð og tryggja sem hagstæðast verð fyrir hreinar hollar afurðir sem kæmu frá landinu fagra. Og ekki má gleyma orkunni sem landið býr yfir. Við, íslendingar gætum og myndum vinna okkur útúr þessum vanda án þess að ganga of nærri náttúruauðlindunum sem nú, enn einusinni, kæmu okkur til bjargar.

Það að opna veitingahús hér við höfuðborgina kann að hljóma undarlega á þessum tímum samdráttar í bandarísku samfélagi. Og það er ekki bara þetta eina veitingahús sem verið er að opna hér í borginni og nágrenni hennar. Það eru flestir af þekktustu matreiðslumeisturum landsins að opna veitingahús hér í borginni. Það fannst mér líka undarlegt.

En einn vinur minn í þessari atvinnugreni  benti mér á að nú, hinn 4 nóvember næstkomandi, verður kosinn nýr forseti Bandaríkjanna. Það fer nú reyndar ekki á milli mála hér í Höfuðborginni. Þegar þeirri kosningu líkur og nýjir þingmenn kjörnir, verður mikið um að nýtt fólk flytji til borgarinnar og aðrir hverfi á braut. Þetta eru einhverjar tugþúsundir nýrra íbúa. Langflestir tengjast hinum  nýju stjórnmálamönnum sem taka munu við störfum hér,  allavega næstu 4 árin.

Þetta þýðir að allt þetta fólk þarf að byggja upp tengslanet í borginni við stjórnsýsluna, þrýstihópana, ráðuneytin, fjölmiðlana og þá sem hér búa og hafa verið hér um aldur og ævi. Til að kynnast fólki hér, er langalgengast að veitingahúsin séu notuð sem fundarstaðir við fyrstu kynni og þessvegna sjá menn að hér  séu uppganstímar framundan þegar nýjir menn taka við. Þá skiptir ekki máli hvor þeirra frambjóenda vinnur í þessu tilfelli því það verða allavega nýjir menn sem taka við.

Þessi atburðarás mun einnig hafa áhrif á íbúðamarkaðinn hvort sem um er að ræða kaup eða leigumarkaðinn en í borginni eru langflestar leiguíbúðir af öllum stórborgum Bandaríkjanna einmitt vegna allrar stjórnsýslunnar sem hér er. Það er því  ekki að sjá, í augnablikinu, að hér í þessu nágrenni verði endilega svo slæmir tímar á næstunni þó svo að þess gæti annarsstaðar.

Og  svo má nú ekki gleyma því, að nú er Wall Street að mestu stjórnað héðan, af ríkinu. Hverjum hefði nú dottið það í hug fyrir nokkrum mánuðum síðan. En hin samfélagslega ábyrgð þjóðarinnar er áberandi og afar mikilvægt fyrir allan hinn vestræna heim, að hér takist mönnum vel upp við að styrkja innviði fjármálalífsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldvin Jónsson

Höfundur

Baldvin Jónsson
Baldvin Jónsson
Áhugamaður um landið og miðin
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • JF2 4515
  • Baldvin RAMW
  • ...j_vcapitol2
  • ...bj_vcapitol
  • ...bj_capitol

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband