20.10.2008 | 15:44
Að hefja sókn úr vörn
Sá í fjölmiðlunum heima að nú hyggist menn hefja sókn á erlenda ferðamannamarkaði og er það ánægjulegt að sjá. Sókn getur jú stundum verið besta vörnin. Hér í mínu verkefni hef ég þurft að draga verulega úr kynningarstarfinu þar sem fjármunir verkefnisins hafa dregist saman um 80% frá áramótum.
Það stóð til að vera með Íslandsdaga í verslunum Whole Foods í New York, Washington og Boston ásamt veitngahúsakynningum í sömu borgum. Á þessum dögum hefur okkur tekist, á undanförnum árum, að ná til fólks sem ferðast mikið og er efnafólk upp til hópa. Þetta er líka fólk sem kann að meta gæði matvæla umfram verð. Við erum nú sem dæmi að selja út úr búð dós af skyri á $ 2.79 eða Kr. 307, lambalæri á 2.300 kr. kg. og aðrar afurðir á sömu nótum.
Það sem stóð til að gera á þessum svokölluðu Íslandsdögum var að gefa viðskiptavinum verslananna að smakka matinn okkar svo sem kjöt, fisk, (línufisk og eldisfisk), skyr 4 bragðtegundir, smjör, súkkulaði og vatn. Þessu hef ég nú frestað öllu til betri tíma, því miður. Þegar ég endurskoðaði fjárhagsáætlun okkar í sumar sá ég í hvert stefndi og fækkaði atburðum. En svo aftur í lok september sá ég að það myndi ekki duga og varð því að draga enn frekar úr kynningarstarfinu.
Það sem ég hef svo gert í staðinn er að heimsækja þau svæði sem við erum þegar á og á sumum þeirra verða kynningar á okkar matvælum með aðstoð búðanna. Menn skilja vel að okkur er ekki unnt að gera það sem við höfum gert áður í reglulegum kynningum með íslenskum matreiðslumeisturum. Þetta er auðvitað ekki gott en það er ekkert annað í stöðunni. Auk þess fæ ég ekki peninga að heiman og verð því að nota minn eigin varasjóð á meðan og láta hann duga í augnablikinu.
Þá er nú vonandi að takast að fá afar öflugt dreifingarfyrirtæki í New York til að koma að okkar verkefnum og stefni ég að því að bjóða okkar afurðir inní veitingahús á næstunni. Það verður hrein viðbót við verslanir Whole Foods. Þá er ég búinn að heimsækja deild WFM í Atlanta í Georgíu fylki en þar reka þeir um 20 verslanir og svo líka í Florida en þar eru 14 verslanir. Þessar búðir munu allar hefja sölu á okkar afurðum á næstu vikum og svo eftir áramót.
Það vill svo vel til að samgöngur héðan úr höfuðborginni eru tíðar og þar með hefur mér tekist að fljúga til Fort Lauterdale að morgni á fund með yfirmönnum innkaupa þar og til baka að kvöldi. Sama um Atlanta en þessi flug fara frá Washington um kl. 6 að morgni og svo kemst maður til baka um klukkan 8-10 að kvöldi. Þá eru samgöngur til New York aðallega með lest sem hægt er að taka kl. 5 eða 6 að morgni og er maður ca. 3 tíma á leiðinni og kemst svo til baka á kvöldin. Með þessu spara ég hótelkostnað sem er í þessum stórborgum um $ 2-350 nóttin með sköttum. Það sama gildir um Boston.
Viðskiptavinir okkar skilja vel þessa stöðu og hafa tekið fullt tillit til þess að setja saman fundi sem henta mér vegna þessara erfiðleika. Okkur hefur semsagt tekist að fá fleiri verslanir til að selja afurðir okkar en þarf nú að huga að því hvað eru bestu flutingsleiðirnar. Nú skiptir því miklu máli að bensínverð er á niðurleið og munu því landflutningar lækka eitthvað, vonandi til frambúðar.
Í öllu því kynningarefni sem við höfum framleitt og liggur frammi í verslunum Whole Foods er vakin athygli á Íslandi sem góðum ferðakosti. Það væri nú ekki verra ef við gætum staðið saman að því að kynna áfram matinn okkar um leið og við kynnum ferðamöguleika landsins sem framleiðir þennan líka frábæra mat. Sameinuð stöndum vér!
Aldrei, aldrei, aldrei gefast upp!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Um bloggið
Baldvin Jónsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.5.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.