Vika fjögur: Heimilin og matvælasýning

 Gestrisni íslendinga er löngum þekkt. Það væri því tilvalið að fá valin  heimili og fjölskyldur til að taka á móti erlendum ferðamönnum og bjóða þeim í mat inná heimilin. Það myndi vafalaust vekja mikla athygli og um leið vera góð kynning á menningu þjóðarinnar og heimilsmat. Jafnvel gætu heimilin boðið ferðafólkinu uppá ferð í verslanir til að kaupa inn og elda svo með fólkinu.

Þarna liggja jafnmörg tækifæri og fjölskyldurnar eru margar. Hver getur haft sinn hátt á og kynnst fólki frá framandi löndum og þar með myndi landinn sjálfur vera beinn þátttakandi í að kynna land sitt og þjóð, menningu og siði. Í lokavikunni mætti svo efna til matvælasýningar þar sem allt sem áhugavert er við íslenska matvælaframleiðslu væri kynnt fyrir heimamönnum og erlendum innkaupastjórum matvæla.

Þetta væri líka kjörið tækiæfri til að kynna nýjungar í matvælaframreiðslu en Samtök iðnaðarins hafa einmitt tileinkað árið 2011 sem ár nýsköpunar. Um svipað leiti er haldin sýning í Þýskalandi sem margir Evrópuíbúar og Bandaríkjamenn heimsækja ár hvert. Ferðamennirnir frá Ameríku gætu því komið við á leið sinni yfir hafið.  Hér gæti verið tækifæri fyrir atvinnulífið og hið opinbera aðtaka höndum saman um kynningu á þeim verðmætum sem landið hefur uppá að bjóða á nýstárlegan hátt án of mikillar fjárfestingar og áhættu.

Fyrst og fremst mun fjármunum verða varið í kynningu, markaðssetningu og boðum fjölmiðla til landsins af þessu tilefni. Nægur tími er til að vinna markvisst að undirbúningi og væri líklega skynsamlegt að Samtök iðnaðarinas með SMK  Samtök mjólkur og kjötdeild  sína leiddu verkefnið í samvinnu við Samtök atvinnulífsins sem myndi stilla saman strengi og leggjast á eitt um trygga og kraftmikla samstöðu meðal hagsmunaaðila.

Þá er hugmyndinni komið á framfæri og vonandi sjá menn einhver tækifæri sem í henni felast.


Vika þrjú: Sælkeradagar

Sælkerahátíðin Food and Fun hefur nú verið haldin í 10 ár með góðum árangri. Keppnin og hátíðin er nú vel þekkt meðal helstu matargæðingaEvrópu og Bandaríkjanna og auðvelt að fá til landsins heimsþekkta og viðurkenndra matreiðslumeistara sem nú eru orðnir um 150 talsins sem komið hafa til landsins í tilefni hátíðarinnar.

Hátíðin hefur fest sig í sessi sem ein af bestu matarhátíðum í hinum vestræna heimi samkvæmt fréttaveitu Bloomberg. Íslendingar hafa fangað hátíðina og gert hana að föstum viðburði á ári hverju með því að fjölmenna á veitingahús og hafa um 20.000 manns farið út að borða fjölbreyttan mat á allt að 15 veitingahúsum í vikunni. Þá hafa erlendir fjölmiðlar sýnt vaxandi áhuga á hátíðinni. Þessi vika er því tilvalin til að draga fram allt það  besta sem íslensk matvæla framleiðsla hefur uppá að bjóða.


Vika tvö: Kærleikur, friður, vinátta og ástin

 Vetrarhátíð í Reykjavík hefur tekist vel og bryddað hefur verið uppá ýmsum nýjungum; sýningarsalir borgarinnar opnir almenningi og efnt til kærleiksdags. Hinn 14. febrúar er svokallaður Valentínusardagur haldinn hátíðlegur að katólskum sið. Þann dag ferðast fólk víða um heim í rómantískar ferðir, fer mikið út að borða og tjáir ást sína með margvíslegum hætti. Á Íslendi eru einstaklega góð skilyrði til að skapa andrúmsloft fyrir ást og umhyggju meðal fólks. Þá yrði vakinn sérstök athygli á myrkrinu og kertaljósum. Mikilvægi hollra matvæla og vellíðunar á heilsuræktarstöðvum. Baðhús gætu verið með kynningu á sinni starfsemi, sem og snyrtistofur, nuddstofur og sundlaugar kjörinn vettvangur til að bjóða erlendum ferðamönnum að heimsækja einn dag. Þá væri frítt í allar laugar landsins og sköpuð sérstök stemning með kertaljósum og fallegri tónlist sem flutt væri af íslenskum listamönnum. Boðið verði uppá ævintýraferðir víða um land sem tækju mið af veðri hverju sinni og væru þær einnig tengdar matvælum, hollustu og vellíðan. Þetta væri kjörið tækifæri til að efla verulega kynningu á heilsu tengdri ferðaþjónustu sem og lýtalækningum, tannígræðslum, megrun, líkamsrækt og útivist. Af nógu er að taka fyrir hugvitsfólk til að tefla fram góðum hugmyndum og gera fólki lífið sem ánægulegast. Einnig mætti hugsa sér að efna til alþjóðlegrar friðarhátíðar en íslendingum er það mikið í mun að verð land friðar og kærleika.

Vika eitt: Menning sagan og þorrinn

 Þorrablótin eru orðinn fastur liður í menningarflóru landsmanna. Í tengslum við þessa viku væri ferðamönnum gefinn kostur á að kynna sér sögu matar á landinu. Heimsækja sveitafólk og sjá hvernig og hversvegna súrmatur varð til og hvernig forfeður okkar lærðu að lifa með óbilgjarnri náttúru landsins allt frá landnámsöld. Einnig væri haldin almenn kynning á sögu og hefðum matargerðar í söfnum á landinu. Þá væri hugsanlegt að bjóða ferðamönnum að fara á sjó með línubátum og sækja fisk í soðið. Þar sem þorrablótin hafa þróast í að verða hin mesta skemmtun og fastur punktur í smáum sem stórum byggðakjörnum á landinu öllu væri því hægt að bjóða ferðamönnum að taka þátt í þeim með sama hætti og þjóðverjar nýta Október festivalið, til að kynna sína menningu, mat og öl og ekta þýskri stemningu. Þannig  gætu þorrablótin okkar orðið skemmtun fyrir ferðamenn sem fá þá tækifæri til að kynnast landanum á góðra vina stund á sanna íslenska vísu. Undirritaður ræddi við nokkra Evrópubúa sem sóttu eitt af stóru Þorrablótunum á höfuðborgarsvæðinu nýlega og voru allir á einu máli um að þessi skemmtun hefði verið hápunkturinn á ferð þeirra til Íslands. Þeir tóku þátt í blótinu af fullum krafti, létu sviðakjammana “tala” hverjir við aðra, storkuðu sjálfum sér með hákarli og brennivíni og sungu, með sínu nefi, íslensk þjóðlög. Einn þjóðverji í hópnum sagði að súrmaturinn okkar væri ekki ósvipaður og súrkálið í Þýskalandi.Það verður svo þáttur hvers ferðaþjónustuaðila að brydda uppá enn frekari skemmtilegum atburðum í kringum þorrann, af nógu er að taka.

Hversvegna febrúar?

 Það er horft til febrúarmánaðar vegna þess að þá er hvað minnst af ferðamönnum sem sækja landið heim og svo hitt að í mánuðinum eru stoðir sem þegar hefur verið fjárfest í og skapa tækifæri til kynningar á landinu jafnt fyrir heimamönnum sem og ferðamönnum. Það er því afar mikilvægt að heimamenn taki þátt í atburðum sem boðið verður uppá til að ferðamenn njóti þeirra sem best. Íslendingar eru kröfuharðir neytendur og ef þeir eru sáttir við aturði sem hér á eftir verða nefndir má ljóst vera að ferðamenn muni einnig njóta þeirra. Maður er jú manns gaman og ferðamenn hafa ekki síst ánægju af að kynnast íbúum mismunandi landa en náttúrunnar eða annars þess sem fólk hefur áhuga fyrir. Íslendingar eru gott fólk heim að sækja, eru gestrisnir upp til hópa, fjölfróðir og tala tungum sem aldrei fyrr. Þetta er haft í huga við eftirfarandi hugmyndir. Flestir atburðir gætu verið í boði allan mánuðinn en þema hverrar viku myndi verða kynnt sérstaklega sem hápunktar. Sem dæmi þá er þorramatur í boði allt fram til loka febrúar.    

Vetrarferðamennska

  Í tilefni umræðunnar um að auka vetrarferðir til Íslands þá hef ég verið að láta mér detta í hug að best væri að nýta þá innviði sem við eigum nú þegar og leggja höfuð áherslu á markaðsþáttinn og veita aðilum í ferðaþjónustunninni stuðning til að bæta  og bjóða uppá klæðskerasaumaðar  ferðir til landsins. Ég hef því valið þá leið að gera febrúar að mánuði matvælanna í þágu ferðaþjónustunnar, en ekki síst fyrir okkur sjálf í leiðinni. Það er nefnilega þannig að ef landinn er ekki virkjaður og líkar ekki við það sem boðið er uppá, þá hafa ferðamenn engan áhuga. Við erum jú öll fólk. Food and Fun er gott dæmi um atburð sem þjóðin sló skjaldborg um og því hefur hátíðin lifað góðu lífi í 10 ár og er orðin ein af áhugaverðustu matarhátíðum meðal matreiðslumanna víðsvegar um heim. Það tekur nokkur ár að festa svona atburð í sessi en einvhersstaðar verða menn að byrja.  Staðið hefur yfir könnun á áhuga starfsgreina atvinnulífsins um hvort áhugi sé fyrir því að tileinka febrúarmánuð sem mánuð matvælanna á Íslandi; gera hann að árvissum atburðum. Tilgangurinn er ekki bara sá að vekja athygli landsmanna á mikilvægi iðnaðarins, sem byggir á ákveðinni sérstöðu íslenskra matvæla, heldur líka  að stuðla að aukinni meðvitund landsmanna á menningu og sögu lands og þjóðar.  Aukinheldur er horft til þess að mánuðurinn geti orði aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu landsins og stuðlað að því að lengja ferðamannatímabilið yfir vetrarmánuðina. Lega landsins við heimskautsbaug gerir það að verkum að landbúnaður á Íslandi hefur mikla sérstöðu.Þar má nefna sem dæmi að hvergi þekkist að sauðfjárrækt sé stunduð með sama hætti og á Íslandi. Þá hefur bændum tekist að vernda bústofna nánast allt frá landnámsöld. Áhugi fyrir öðrum hreinræktuðum stofnum fer vaxandi. Sjávarútvegur tekur mið af sömu aðstæðum og landbúnaðurinn og nálgæð þjóðarinnar við fiskimiðin er einstök og atvinnugreinarnar styðja því hvor aðra einkum í byggðalegu samhengi. Þá hafa bæði sjávarútvegur og landbúnaður verið á meðal helstu vaxtarbrodda í ferðaþjónustunni sem talin er vera ein mest vaxandi grein í íslensku atvinnulífi. Það er því á þessum forsendum sem lagt er til að samnýta hagsmuni matvælageirans við ferðaþjónustuna og skapa þar með enn meiri verðmæti í útflutningi á afurðum og auka enn frekar tekjur af ferðafólki sem sækir landið heim. Einnig er ljóst að nýting fjármuna til kynningar og markaðssetningu á landinu og afurðum þess gæti nýst betur og þjónar hagsmunum flestra greina atvinnulífsins. Talið er að rúmlega einum milljarði króna sé varið af opinberum fjármunum til markaðsstarfs á erlendum mörkuðum og má því búast við að með mótframlögum einkafyrirtækja sé þessi upphæð ríflega tveir milljarðarar á ári.

Metnaður er mikilvægur

 

Í tilefni komu Icelandair til Washington var talsvert mikið fjallað um landið okkar fagra í fjölmiðlum og þó nokkuð af auglýsingum í borginni frá félaginu. Þegar svona tækifæri bjóðast er um að gera að nýta þau.  Því var ákveðið að leita til Sigga Hall og fá hann til borgarinnar enda erum við Siggi að vinna að undirbúningi hinna Norrænu daga hér í borginni. Auk móttökuathafnarinnar á flugvellinum buðu sendiherrahjónin hér í Washington, Hjálmar og Anna,  í samvinnu við Icelandair til móttöku í Sendiherrabústaðnum miðvikudaginn 18 maí.

 

Þar mættu frammáfólk í ferða og útflutningsgreinum á Íslandi ásamt fjölmiðla-og ferðamála fólki hér í borginni. Metnaður sendiherrahjónanna er ekki síðri en Icelandair manna. Því var ákveðið að setja upp allt það besta í matvælum sem þjóðin hefur uppá að bjóða og bera það fram fyrir um það bil 90 gesti.

 

Siggi með dyggri aðstoð starfsfólks hússins og sendiherrafrúnni eldaði dýrindis mat á þjóðlegan hátt. Svo þjóðlegan að sumir fengu heimþrá. Á borðinu mátti sjá fjölbreytta fiskrétti, gratíneraða, pönnusteikta og soðna. Reyktan lax og bleikju, kótelettur, lambakjötsúpu, steikt lambalæri að hætti ömmu, rauðkál og rauðbeður, grænar baunir, skyr, osta og súkkulaði. Aldeilis glæsilegt og svo má ekki gleyma síldinni og rúgbrauðinu sem sendiherrafrúin er orðin þekkt fyrir. Það var mikill metnaður sem lá að baki þessu glæsilega hlaðborði enda tók fólk vel til matarins.

 

Það var gaman að taka þátt í þessum viðburði og finna hvað við íslendingar erum stolt af landinu okkar og þjóð. Allir sem komu að þessu boði og voru á öllum aldri nutu þess svo sannarlega að koma á framfæri öllu því sem íslenskt er og gerðu það með bros á vör.

 

Í upphafi bauð sendiherrann gesti velkomna á heimilið, það er alltaf jafn notalegt

að koma þangað og gestrisnin í fyrirrúmi. Þá talaði Birkir Hólm forstjóri Icelandair og fór fögrum orðum um land vort og þjóð, síðan talaði ferðamálastjóri Washington borgar og fagnaði komu Íslendinga og óskaði þeim velfarnaðar enda hagsmunir beggja í húfi. Að lokum talaði svo Össur Skarphéðinsson  Utanríksráðherra beint frá hjartanu um land og þjóð af miklum eldmóð og ástríðu.

 

Fyrr þennan sama dag höfðu gestir Icelandair farið í kynningarferð um borgina en fæstir höfðu komið hingað áður. Voru allir sammála um að borgin hefði komið á óvart og þeir mjög ánægðir með það sem fyrir augu bar.

 

Á fimmtudeginum var svo staðið að matvælakynningu í verslun Whole Foods þar sem Siggi Hall og Lauren Gordon, sem meðal annar vinnur að kynningu og innflutningi á okkar afurðum, kynntu osta, skyr, súkkulaði og hvernig íslenska smjörið er er nýtt til steikingar enda eitt besta smjör sem völ er á. Nokkrir landa heimsóttu búðina en um 400 manns fengu að smakka sælkeramatinn okkar.

 

Ég verð að viðurkenna að það gladdi mig mjög að finna þenna mikla áhuga sem Washingtonbúar sýna landinu okkar og afurðunum. Það er líka sérlega gaman að vinna með fólki sem hefur brennandi ástríðu fyrir verkefnum sem snúa að hagsmunum þjóðarinnar. Það vantar svo sannarlega meira af slíku fólki. Þeir sem gera alltaf aðeins meira en þeir þurfa er fólk að mínu skapi. Að leita sífellt nýrra tækifæra til að auka hagvöxt og afkomu þjóðarinnar er mikilvægt alltaf og ekki síst á tímum sem nú. Það er betra að gera eitthvað en ekki neitt. Að halda áfram getur leitt til þess að menn geri mistök, en þau má alltaf leiðrétta, En að gera ekki neitt, ekki einusinni mistök, endar bara með ósköpum. Það ber að þakka öllum þeim sem sýndu í síðustu viku landinu okkar þá virðingu sem landinu ber, Þakka öllum fyri gott og sérlega ánægjulegt samstarf. Lifi Ísland.


Icelandair beint til Washington borgar.

 

Síðustu vikur hafa verið spennandi hér í Washington. Mikið að funda og skipuleggja vegna hinna Norrænu daga sem verða haldnir í borginni vikuna 20 til 26 júní nk. En svo var það fyrsta flugið til borgarinna beint frá Íslandi sem hófst þriðjudaginn 17 maí. Yfirmenn Icelandair eru drifnir áfram af miklum metnaði og hefur það veitt mér mikla ánægju að vinna með félaginu í gegnum tíðina við kynningu landsins allt frá fegurðarsamkeppnum, knattspyrnu og matarkynningum til almennra kynninga á landi voru og þjóð.

.

Í tilefni fyrsta flugsins vildu þeir Icelandair menn efna til athafnar við brottfararhlið félagsins fyrir þá farþega sem voru að fara til Íslands og Evrópu með vélinni. Fékk ég tækifæri til að aðstoða við uppsetningu þess atburðar í samvinnu við forystumenn félagsins hér í Bandaríkjunum. Var ákveðið að fá einn af fremstu matreiðslu meisturum borgarinnar Jeff Tunks enn einn Íslandsvininn og formann dómnefndar í Food and Fun og fyrirtæki hans til að setja saman veisluhlaðborð með íslenskum sælkeramat svo sem lamb borgurum, bleikju, þorski, humri, skyri og ostum og smjöri. Auk þess var boðið uppá Iceland Glacial vatn og Víking bjór auk léttra vína. Þá lék hljómsveit létta tónlist og úr varð hið besta boð og það í miðjum brottfararsal á flugvelli. Ekki hefði mér dottið í hug að þetta gæti verið góður skemmtistaður en með vilja og sameiginlegu átaki góðra vina tókst vel til.

 

Í vélinni að heiman komu gestir félagsins með Utanríkisráðherra og forstjórum félagsins í fararbroddi til að klippa á borðann og formlega hefja starfsemi félagsins á flugi til og frá Dulles flugvellinum.

Við athöfnina fluttu ræður fulltrúar flugvallarins, fulltrúi Virginíu fylkis, Birkir Hólm forstjóri og að lokum Össur Skarphéðinsson sem fór á kostum í sinni ræðu, þó ekki sé meira sagt.

 

Farþegar félagsins á leið til Íslands léku á alls oddi og nutu góðra veitinga og voru með bros á vör. Dulles flugvöllur er mikið og glæsilegt mannvirki og er sífellt að stækka og taka á sig betri mynd. Það er ekki nema um hálftíma akstur frá vellinum inn til miðborgarinnar og ég er viss um að borgin á eftir að heilla íslenska ferðamenn enda ein fallegasta borg Bandaríkjanna.

 

Fyrir utan valdastofnanir í borginni þá er svo margt áhugavert að sjá og skoða. Fólkið í borginni er upp til hópa mjög vinsamlegt og tekur vel á móti ferðamönnum enda vanir því að hingað komi nýjir íbúar reglulega. Sem dæmi þá eru tugir sendiráða ríkja í borginni og fólk í þeim kemur og fer á nokkurra ára fresti. Þá eru nýjir þingmenn sem koma og fara reglulega ásamt starfsfólki sínu og svo er Forsetinn aldrei lengur við völd en 8 ár og honum fylgja þúsundir starfsmanna.

 

Þetta gerir það að verkum að í borginni er nú ein skemmtilegasta flóra góðra veitingastaða enda er það siður hér að menn fari saman út að borða til  að kynnast utan hins hefðbundna vinnu umhverfis. Í borginni er lítið atvinnuleysi miðað við marga aðra staði í landinu og hreinleiki er mikill. Sett hefur verið upp hjólaleiga með um 1.500 reiðhjólum og stefnt að því að þau verði orðin um 5.000 á næsta ári. Borgin er björt með breiðstrætum og torgum og ekki tekur nema um 50 mínútur að ganga þvert yfir miðborgarkjarnann frá Kínahverfinu að Georgetown.

 

Þá eru ótalin hin glæsilegu Smithsonian söfn sem eru 27 talsins og frítt inní þau öll.

 

Það var afskaplega gaman að vinna með Icelandair fólkinu í þessari móttöku og sýnir vel hvað matur og ferðir eiga góða samleið við kynningu landsins. Allir þurfa ferðamenn að borða og ekki er verra að maturinn sé góður og hollur. Það staðfestir einungis að Ísland er menningarland sem byggir á náttúrulegum afurðum og hreinleika náttúrunnar.


Gæði forsenda árangurs

Mikil áhersla verður lögð á gæði þeirra afurða sem íboði verða á síðunni. Afurðirnar verða að uppfylla skilyrði um sjálfbæra framleiðsluhætti. Síðan munu væntanlega einhverjar afurðir þurfa að fara í gegnum Hollustuvernd Bandaríkjanna FDA og aðrar eftirlitsstofnanir þar sem það á við.

 

Að Sölumiðstöðinni kæmu hluthafar sem tryggja með hlutfé sínu að félagið geti staðið straum af fjárfestingum og undirbúning að rekstri félagsins í þágu viðskiptavina sinna. Tekjustofn félagsins byggist einkum á föstum mánaðarlegum greiðslum frá fyrirtækjum eftir vægi þeirra sem og sölulaunum af smásöluverðum frá vöruhótelinu.

 

Þá hefur verið rætt við stofnanir um styrkveitingar gegn mótframlögum Sölumiðstöðvarinnar og hefur sú umræða fengið góða hljómgrunn enda mun hægara um vik þegar fleiri aðilar sameinast undir einu merki.

 

Gert er ráð fyrir tveimur til þremur starfsmönnum fyrstu tvö ár starfseminnar. Það er sá tími sem áætlaður er til að komast inná markaðinn.  Með þessu móti má lágmarka áhættu hvers fyrirtækis fyrir sig, sem greiða fast mánaðar gjald fyrir veitta þjónustu.

 

Þetta hér í síðustu pistlum eru hugleiðingar mínar um hvað hægt er að gera til að selja íslensk matvæli og þjónustu. Styrkja enn frekar góða ímynd landsins og veita litlum og stórum fyrirtækjum aðgang að erlendum mörkuðum með lágmarksáhættu og árangri.

 

Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að tækifærin eru okkar, ef við bara viljum nýta þau?

 

Ferðaþjónustan og matvælin eiga samleið

Mikilvægt er að koma á góðu sambandi við ferðaþjónustuaðila sem selja Íslandsferðir og nýta krafta þeirra og sambönd. Samlegðaráhrif af samstarfi við ferðaþjónustuna eru augljós, enda náttúra landsins það sem ferðamenn sækjast einkum eftir. Matur skiptir verulegu máli í ferðaþjónustunni enda eiga allir ferðamenn það sameiginlegt að vilja njóta hollra spennandi matvæla á ferðalögum. Má í þessu sambandi hafa til hliðsjónar þau  áhrif og tækifæri sem matarhátíðin Food and Fun sem haldin hefur verið ár hvert í 10 ár. Hátíðin  hefur skapað traus sambönd við fjölmiðlafólk og matreiðslumeistara víða um veröld. Um 160 matreiðslumenn hafa þegar sótt landið heim og í framhaldinu  tekið  þátt í kynningu á landi og þjóð.

 

Rætt hefur verið við öflug netþjónustufyrirtæki í Bandaríkjunum um uppbyggingu og rekstur síðunnar. Mikilvægt er að skoða þróun netverslunar í heiminum en hún fer mjög hratt vaxandi einkum í svokölluðum sérverslunum. Hefur Áform skoðað áhugaverð gögn þar að lútandi og þar fer ekki á milli mála að verslun á netinu er sannarlega komin til að vera og mun aukast hratt á næstu árum. Vandinn verður því að markaðsetja síðuna með öllum tiltækum ráðum.

 

Hópurinn sem höfðað verður til eru um  10% þjóðarinnar sem unnt er að nálgast í gegnum aðila sem  þegar er unnið með. Má þar nefna að allar afurðir sem seldar eru í Whole Foods Markets eru merktar Sustainable Iceland. Það tækifæri má nýta enn betur en nú er gert. Afurðirnar seljast í verulegu magni og þeim fylgir kynningarefni um afurðirnar og Ísalnd, sem reglulega er haldið að viðskiptavinum verslananna. Þarna er um að ræða hóp fólks sem gerir miklar kröfur  viðskiptavina einsog áður hefur komið fram og vilja fræðast um allt það búðirnar hafa á boðstólum.

 

Þá er mikilvægt að nýta sér póst sambönd sem nú eru til meðal íslenskra aðila um heim allan. Einnig er nauðsynlegt að bjóða fjölmiðlafólki til Íslands til að kynna sér hina sjálfbæru búskaparhætti og sérstöðu landsins í hvívetna.

 

Næsta síða »

Um bloggið

Baldvin Jónsson

Höfundur

Baldvin Jónsson
Baldvin Jónsson
Áhugamaður um landið og miðin
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • JF2 4515
  • Baldvin RAMW
  • ...j_vcapitol2
  • ...bj_vcapitol
  • ...bj_capitol

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband