7.11.2010 | 13:12
Lambakjötssala 2010
Lambakjötsalan hefur aukist umtalsvert á þessu ári. Sölutímabilið er nú lengra en nokkru sinni fyrr en það hófst í lok ágúst og mun að öllum líkindum standa yfir fram í loka nóvember mánaðar. Allt kjötið er fullunnið og því verðmætasköpun veruleg miðað við aðra markaði. Almenn ánægja er meðal kaupenda og hafa flutningar með Icelandair Cargo gengið vel. Engin sending hefur verið stöðvuð í tolli og engin sérstök skoðun farið fram. Okkur hefur því tekist með þolinmæði að ná stöðugleika í flutningunum og það er einnig í fyrsta sinn sem það hefur gerst frá því að útflutningur á kjötinu hófst.
Framkvæmdastjóri Sláturhússins á Hvammstanga sem er framleiðandinn, kom hingað til Washington á fund með kjötkaupmönnum Whole Foods Markets sl. sumar. Hann var viðstaddur opnun nýrrar verslunar WFM og hitti á þremur dögum alla þá aðila sem skipta máli í kjötdeildunum. Hann lærði mikið og fann ýmsar leiðir til að auka arðsemi af framleiðslunni.
Þetta var farsæl ferð og gagnkvæmur skilningur á milli aðila náðist. Þetta hefur leitt til þess að nú í haust hefur salan gengið afar vel, Flutningar gengið snurðulaust fyrir sig, sölutímabilið verður nú lengra en áður og almenn gagnkvæm ánægja ríkir milli manna. Á þessum grunni verður nú byggt.
Samkvæmt útflutningstölum Hagstofunnar fæst fjórum til fimmsinnum hærra verð fyrir kjöt á þennan markað en aðra útflutningsmarkaði. Magnið hefur aukist hægt, en bítandi. Vandinn er einkum sá að WFM vilja einungis selja kjöt í sláturtíð sem er frá lokum ágústmánaðar og nær til byrjun nóvember mánaðar. Á þessum tíma er því mikilvægt að setja mikinn kraft í kynningarmálin og höfum við gert það nú meir af vilja en mætti og kynnt aðrar afurðir og ferðaþjónustu í 25 búðum viða um landið. Því átaki líkur um miðjan nóvember. Þar kynnir Siggi Hall, auk kjötsins sem steikt er uppúr íslensku smjöri inni í búðum, boðið viðskiptavinum að smakka hið margrómaða skyr og súkkulaði samtímis.
Allar búðir sem selja nú kjöt eru skreyttar með glæsilegu kynningarefni um Ísland og afurðir þess. Þá er Icelandair merkið inná öllu kynningarefni og bæklingum sem er gott því þetta er einsog áður hefur verið getið vænlegur hópur viðskiptavina. Ísland er eina landið sem fengið hefur tækifæri að þessu tagi inni í verslunum WFM. Ekkert flugfélag hefur heldur fengið tækifæri til að kynna starfsemi sína í búðunum áður. Í þessu felast verðmæti sem sannarlega eru þess virði til að nýta vel og með samstilltu átaki allra aðila sem hafa það hlutverk að kynna land og þjóð mætti nýta enn betur.
Það er því fyrir lambakjötið sem Whole Foods Markets kynntust íslenskum matvælum og hafa aukið vöruúrvalið talsvert á síðustu árum og eiga enn eftir að bæta við. Lambið ruddi brautina og á enn eftir að aukast með tíð og tíma. Aðalatriðið er að selja afurðina á grundvelli gæða, stöðugleika og á sanngjörnu verði sem er það verð sem bændur þurfa og eiga skilið að fá fyrir afurðina.
Lambakjöt er yfirleitt nokkuð dýrt á erlendum mörkuðum og flokkast ekki, nema á Íslandi, sem hin hefbundna kjötafurð. Langstærstu framleiðendur á kjötinu eru Ný Sjálendingar og Ástralir. Held að Ný Sjálendingar framleiði á einum morgni á virkum degi jafnmikið af lambakjöti og öll framleiðsla okkar íslendinga á ársgrundvelli.
Lambakjöt er lílega eina kjötið sem ekki er unnt að framleiða í svokölluðum forsendum verksmiðjibúskapar. Kindurnar þurfa að hafa svigrúm og geta athafnað sig úti í náttúrunni. Þessvegna nýtur lambakjöt almennt mikillar virðingar meðal sælkera og þeirra sem kunna að meta sérstöðu kjötsins. En sauðfé er misjafnt eftir löndum og byggist það í fyrsta lagi á mismunandi stofnum, fóðrun og aðstæðum sem dýrin alast upp við. Þar hefur íslenska lambið talsverða sérstöðu því kindurnar eru af stofni sem hvergi fyrirfinnst í veröldinni. Öll lömb fæðast á vorin og slátrað á haustin og eru skrokkarnir yngri og fituminni en annarsstaðar. Þá hefur sannast að óvenju hátt omega 3 fitusýrur finnst í kjötinu.
Þetta gerir meðal annars okkar kjöt öðruvísi en annað lambakjöt og sumum finnst það betra fyrir bragðið. Margir virtir matreiðslumeistarar víða um heim hafa látið hafa það eftir sér að þeim finnist íslenska lambið það besta í veröldinni og í kynningarefni WFM sem nú liggur frammi í búðunum halda þeir því fram að okkar kjöt sé bragðbesta lambakjöt í heimi eða " Simply the best tasting lamb in the World!" ! Jafngilir í mínum huga að fá gullverðlaun á Ólympíuleikum.
Þeir sem aftur á móti eru aldir upp við kjöt af stærri skrokkum af öðrum stofnum finnst sterkt villibráðabragð betra en hið milda bragð af okkar kjöti. Svona einsog er með okkur öll, ég er margbúinn að reyna að borða kæsta skötu en finnst hún einhver versti matur sem ég hef sett inn fyrir mínar varir en skil alveg og met við vini mína sem aldir eru upp við þennan hryllilega bragðvonda mat að þeim finnist hún góð!
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Um bloggið
Baldvin Jónsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.