14.6.2008 | 16:17
Capital Pride í Washington
Um þessa helgi fer fram hin árlega skrúðaganga sem áður hét Gay Pride en heitir nú Capiltal Pride. Þessi viðburður sem byrjaði sem hátið samkynhneigðra er nú orðin ein alsherjar hátíð svokallaðra minnihlutahópa en samkynhneigðir þó enn mest áberandi á hátíðinni sem stendur í þrjá daga. Það er reiknað með að til borgarinnar komi um það bil 200.000 gestir víða að, ekki bara héðan frá þessu stóra landi, heldur líka fjöldi erlendra gesta. Hátíðin ein allra fjölmennasta sem fram fer hér í landinu af þessu tagi og mikið, já reyndar gríðarlega mikið um dýrðir í orðsins fyllstu merkingu.
Í dag laugardag hefst gangan og eitt aðalhátíðarsvæðið þar sem gangan fer um er einmitt við verslun Whole Foods Markets við P Stræti en það er sú verslun WFM þar sem við höfum gert upphafstilaunir ( pilot marketing) með okkar frábæru íslensku afurðir. Þessi verslun er ein söluhæsta verslun WFM í Bandaríkjunum en er samt ekki mjög stór í fermetrum talið. Þar verður því mikið um að vera í dag og mun ég reyna að hjálpa þar til við kynningar á afurðum okkar allavega eitthvað frameftir degi. Það hefur ætíð verið spennandi að hefja tilraunir í þessari búð vegna þess að viðskiptavinirnir eru af mjög fjölbreytilegum uppruna. Það hefur reynst þannig að ef þessi búð selur okkar afurðir þá verða þær vinsælar allsstaðar annars staðar.
Seinnpartinn í dag efnir Íslendinagfélagið hér á svæðinu til mótttöku í samráði við Sendiráð Íslands til samkomu á heimili Sendiherrans í tilefni þess að Þjóðhátíðardagur okkar er í næstu viku. Það er því ávallt haldið uppá daginn um helgar. Það hefur verið gaman að hitta landann á þessum stundum. Það er nefilega þannig með íslendinga að þeir verða því meiri íslendingar eftir því sem þeir dvelja lengur að heiman. Þetta er fólk sem rekur fyrirtæki hér á svæðinu, skólafólk, fólk sem hefur eignast maka hér eða með einum eða öðrum hætti æxlast þannig að það hefur sest hér að af ýmsum ástæðum. Upp til hópa spennandi fólk og skemmtilegt.
Ég er líka á þeirri skoðun að það sé afar mikilvægt fyrir fólk og kannski einkum okkur íslendinga að kynnast lifnaðarháttum og menningu annarra þjóða. Með því móti getum við gert sanngjarnan samanburð á okkar þjóðfélagi og öðrum. Mér finnst ég hafa haft gott af því og segi það sama um þá landa mína sem ég hitti víðsvegar um heiminn. Mér fannst það því dapurlegt að sjá einn af Þingmönnum landsins gera lítið úr því að íslendingar byggju erlendis. Það er mín reynsla að fólk á enn sterkari taugar til landsins okkar þegar það hefur búið erlendis í tvö ár eða lengur og horfir heim í fjarlægð með augum gestisins.
Mér var sagt það fyrir löngu síðan að orðið heimska hefði einmitt þýtt að sá sem ekki fer útfyrir túnfótinn sé heimskur því hann hafi ekki séð heiminn. Heimskur þýðir því ekki að fólk sé illa gefið, það þýðir bara það að fólk hafi ekki haft tækifæri eða vilja til kynnst öðru en sínu þrengsta umhverfi og geti þannig orðið nokkuð sjálfhverft. Það felast mikil lífsgæði í því að vera íslendingur í útlöndum. Hversvegna? Jú vegna þess að fólk hittir nú ekki íslending á hverjum degi og þessvegna verður íslendingurinn spennandi. Við njótum þess líka meðal þeirra sem eitthvað þekkja til landsins, gæti trúað að það væru svona um 3% af íbúum heimsins, að ímynd landsins er bara mjög fín. Það er líka alltaf hægt að segja spennandi sögur af Íslandi því við erum svo skemmtilega skrítin þjóð í jákvæðri merkingu orðsins.
Í lok þessa mánaðar koma einmitt hingað til okkar fimm fínir kokkar að heiman til að elda og gefa fólki að smakka íslenskan mat í verslunum og á veitingahúsum. Það kostar jú meira að fá menn að heiman en virkar alltaf mjög vel því okkar menn eru mjög frambærilegir og skemmtilegir upp til hópa og vekja mikla athgyli. Það er voða gaman að heyra þegar fólk spyr þá hvaðan þeir séu og þeir svara: "Ég er frá Íslandi". Ha kominn alla leið frá Íslandi? Ég hef aldrei hitt íslending fyrr, ertu virkilega þaðan? Þá eru okkar menn með svörin á hreinu og geta sagt frá því að Ísland sé nú ekki svo langt í burtu. Bara fimm klukkustunda flug. Þeir segja sögur af bændum og sjómönnum. Hvernig föðurnöfn eru enn virt, hvernig við virkjum orkuna og svo framvegis. Skapast alltaf skemmtilegt andrúmsloft í kringum "strákana" okkar.
Já það er gott að vera íslendingur í útlöndum.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Um bloggið
Baldvin Jónsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.