Happy 4

Þjóðhátíðardagurinn vinaþjóðar okkar var í gær. Þá hljómaði Happy 4 um allan bæ. Bandaríkjamenn eru sérlega iðnir við að stytta allt og skammstafa og á maður stundum fullt í fangi með að finna út hvað er hvað. En það venst einsog annað. Ég er til dæmis í miklum samskiptum við USDA, FDA, WFM, DHS, DHL osfrv. Allt hinar merkustu stofnanir og fyrirtæki og allir þekkja FBI, CIA, NBC, ABC, CBS, 24/7 og svona mætti nánast telja upp allar stofnanir og mörg fyrirtæki. En það er annað mál.

Ég ákvað í tilefni gærdagsins að taka mér frí eftir hádegi og taka góðan, langan göngutúr um borgina og hitta hinn sanna Ameríkana sem kemur til Höfuðborgarinnar Washington í tilefni dagsins. Það er nánast skylda hvers manns að koma að minnsta kosti  einu sinni á ævinni í heimsókn til Borgarinnar og þessi helgi er því sérstök að því leiti að hér er gríðarlegur fjöldi Bandarískra ferðamanna á ferli um Borgina.

Macy´s er ein af þessu  dæmigerðu stórbúðum sem gerir mikið út á þjóðerniskenndina. Þeir eru helstu stuðningsaðilar skrúðgöngunnar í New York ár hvert og á Þjóðhátíðardaginn sjálfan er sérstakur 4 júlí afsláttur af fjölmörgum vörum og alltaf hægt að gera góða kaup. Til að taka þátt í og reyna að upplifa Ameríkanann þá ákvað ég að skella mér á assgoti fínar gallabuxur sem áttu að kosta $ 239 en ég fékk þær á $ 59. Keypti svo skyrtu í stíl svona létt köflótta en fór ekki alla leið í litunum. Fékk mér svart hvíta. Svo voru þeir með belti sem mig hefur vantað í langan tíma en alltaf fundist belti vera of dýr. Fékk núna 3 belti sem má snúa (verða þá í raun sex)og nota bæði sem brún og svört belti öll fyrir tæpa $ 60.

Síðan löbbuðum við Magga heim aftur eftir langa og mikla göngu og mér fannst ég vera orðinn Ameríkani. Stakk því uppá því að við færum á dæmigerðan, ekta Amerískan matsölustað og fengjum okkur Ostborgara, með frönskum, tómötum og grænmeti og svo að sjálfsögðu hinn eina sanna, ískaldan Budweiser bjór . Ég fór í nýju fötin og að sjálfsögðu í hvíta sokka og svarta skó og var orðinn þessi fíni Kani. Þegar við komum inná staðinn, Daily Grill, blasti við okkur vinur minn og gamli góði félagi Steinar Berg Ísleifsson sem var að afgreiða á barnum. Ég rauk á Steinar en þá kom í ljós að þetta var alger tvífari Steinars og er Ameríkani en fannst gaman að heyra að hann ætti tvífara í Borgarfirðinum á Íslandi af öllum stöðum.

Við settumst auðvitað á barinn og borðuðum þar og fengum þessa frábæru borgara og ég get nú farið með félaga Sigga Hall á þennan stað því við erum miklir áhugamenn um hamborgara og erum enn að leita að hinum fullkomna. Borgarinn á Daily Grill fær nokkuð margar stjörnur.

Það var farið að rigna þegar við vorum búin að borða og spáin þessa helgi ekkert sérstök. Reyndar alveg nægilega heitt en rigning með þrumum og eldingum reglulega. Við horfðum svo á hina árlegu stórtónleika sem haldnir eru fyrir framan Þinghúsið í aðdraganda flugeldasýningarinnar sem hefst alltaf kl. 21:10. Þetta voru frábærir tónleikar að vanda og þar voru meðal annars Hue Lewis and the News en hann hitti ég einu sinni í París þegar við Hófí vorum þar. Enn mjög flottur rokkari. En hápunktur kvöldsins var svo hinn eini sanni Jerry Lee Lewis. Hann rokkaði fjögur frábær lög og endað á laginu Great Balls of Fire og þá hófst flugeldasýningin, með "Great Balls of Fire" við Washington minnisvarðann, háu súluna. Eldhnettir af stærstu gerð og glæsileg sýning.

Þetta atriði var snilldarlega útfært og ég minntist þess þegar Jerry Lee var í gamla Broadway hjá Óla Lauf þegar Björgvin Halldórsson varð vitni að því, sem og nokkrir aðrir, að Jerry rak bassaleikarann sinn í miðju lagi. Hann var mjög sérstakur karakter þá og er enn. En hann er nú líklega einn merkasti rokkari allra tíma, enda sagði Elvis að ef hann gæti spilað jafnvel á píanó og Jerry þá myndi hann hætta að syngja.

Flugeldasýningin stóð í rúmar 30 mínútur og var hreint út sagt eitt stórt listaverk sem baðaði súlu borgarinnar undurfögrum ljósum og var stundum einsog súlan stæði í björtu báli. Á meðan á sýningunni stóð lék lúðrasveit hersins, sýndist þeir vera um eitthundarða hljóðfæraleikarar í "bandinu". Það var engu líkara en maður væri kominn aftur á gamla Melavöllinn í Reykjavík þar sem Baldur vallarstjóri spilaði einungis samskonar lúðrasveita tónlist. Allir frægu marsarnir voru þarna samankomnir. Þetta var mjög flott sýning og þjóðerniskenndin fékk svo sannarlega að njóta sýn, því Bandaríkjamenn eru mjög þjóðernissinnaðir svona rétt einsog við heima. Og megum alveg vera það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Baldvin Jónsson

Höfundur

Baldvin Jónsson
Baldvin Jónsson
Áhugamaður um landið og miðin
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • JF2 4515
  • Baldvin RAMW
  • ...j_vcapitol2
  • ...bj_vcapitol
  • ...bj_capitol

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 101
  • Frá upphafi: 876

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 101
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband