Færsluflokkur: Matur og drykkur

Loksins

Kæru vinir og vandamenn, þá er ég loksins kominn aftur í gang. Þetta er búið að vera milil yfirreið hjá mér síðan í síðasta bloggi og skal ég nú reyna að stikla á stóru til að komast að nútímanum sem er einhver merkilegasti tími sem ég held ég hafi lifað. En kem að því síðar.

Um síðustu verslunarmannahelgi þá fórum við til Kaupmannahafnar enda hver að verða síðastur til heimsækja þá ágætu borg. Ekki vegna þess að borgin sé að hrynja, ó nei heldur vegna þess að fólk með tekjur á Íslandi hefur hreinlega ekki efni á að vera í borginni. Hún er nú á skrá sem sjötta dýrasta borg í heimi. Enda fór það ekki á millim mála þegar maður borgaði sem svarar $ 20 fyrir bjór úr krana. Á þá verandi gengi ísl krónur 1700

Maður hefi nú ekki efni í því að vera fyllibytta þar, það er kannski eini kosturinn! Það er af sem áður var. Heimsótti nokkrar matvöruverslanir og veitingahús í tilefni að því að ég var valinn til að verða einn af svokölluðum Sendiherra Norrænna matvæla.

Það kom mér satt að segja á óvart hvað vöruúrval í matvöruverslunum í hefðbundnum búðum er í raun fábreytt miðað við að Danir eru taldir meðal fremstu matvælaþjóða Evrópu. Það var helst í matvöruverslun Magazin sem maður sá spennandi mat og framandi. En Danir kunna hinsvegar vel að matreiða einfaldan og góða mat úr hverju sem er og eru auk þess mjög passasamir með fjárútlátin. Það er kannski helsta skýringin á fábreyttu úrvali.

Alltaf samt gaman að koma til Köben en heldur er nú borgin farin að láta á sjá. Komin einhver þreyta í borgina. Ráðhústorgið samt alltaf fullt af fólki en ég tók eftir því að það var ekki mikið um íslendinga á ferð á þessum tíma, líklega vegna verðlagsins. Fór að sjálfsögðu að heimsækja Frikka og þvottahúsið hans og það var gaman. Fínn staður og mikið líf og fjör.

Þá fórum við út að borða ekta danskan mat í hádeginum með góðum vinum okkar og snaps og öl. But of course. Það var fínn dagur. Vorum líka svo heppin að fá inni hjá syni og tengdadóttur og spöruðum stóran pening í gistingu um leið og við nutum þess að búa á "dönsku" heimili á fínum stað. Heimsóttum svo frænku konunnar og nutum þar dagsins í fallegu húsi og ljúffengum mat í danskri sveitasælu.

Ferðin til Danmerkur var mjög ánægjuleg. Ég fann vel fyrir því þar sem og á öðrum Norðurlöndum að við Norðulandabúar búum við talsverða sérstöðu í matvælagerð og framleiðslu matvæla. Það er einfaldleikinn og hráefnið sem gerir  sérstöðuna. Þessvegna hef ég barist fyrir því að við Sendiherrarnir verðum fengnir til að kynna Nýja Norræna Eldhúsið fyrir umheiminum. Rétt einsog Frakkar, Ítalir, Spánverjar og Kínverjar hafa gert með beinum og óbeinum hætti.

Við gerðum tilraun með að sýna á hlaðborði hvað við meinum með hinu Norræna Eldhúsi í Bláa Lóninu í tengslum við Food and Fun í febrúar. Í fyrsta sinn sem það hefur verið gert. Sú kynning var einkum ætluð öllum erlendu blaðamönnunum sem komu á Food and Fun og var Geir okkar Haarde svo vinsamlegur að sjá um veislustjórnina og kynna matinn fyrir fjölmiðlafólkinu. Hann gerði það listavel.

Í hinu virta sælkerablaði Food Arts var svo fjallað um þenna viðburð sem og Norræna matinn í ágúst hefti blaðsins. Þetta var mjög fín grein í þessu merka blaði og okkur til sóma. Á næsta ári mun Ísland taka að sér forystu í Norðurlandaráði og tel ég það vera afar skynsamlegt ef við stæðum fyrir því að þema Ráðsins yrði matur og menning á meðan við stjórum ferðinni.. Ráðið stæði svo fyrir kynningum í Evrópu og Bandaríkjunum á Norðurlöndunum. Matvælunum sem þaðan koma, ferðaþjónustunni, menningu og stórmerkilegri sögu þessara frændþjóða.

Mér finnst þetta fín hugmynd en hef ekki mikla trú á því að þetta verði gert. Mér finnst nefnilega stundum að Norræna samstarfið sé oftar í orði en ekki á borði. Mér finnst líka vera mikil "hreppa-pólítik" innan ráðsins og skriffinnskubáknið ógnvekjandi. Vildi óska þess að einhverjum tækist að sannfæra mig um að svo sé ekki. Aftur á móti tel ég það vera mjög auðvelt og öllum þjóðunum til framdráttar að standa miklu meira saman um sameiginleg hagsmunamál og þá einkum á sviði viðskipta og markaðsmála.

Þá er ég einnig á þeirri skoðun að ríkin öll sem reka sendiráð ,ættu að kanna það í ljósi nýrrar stöðu fjármála landanna að reka sameiginlega sendiráð þar sem þau eru á annað borð. Þetta væri fjárhagslega skynsamleg leið og líklega mjög árangursrík.

Samt er þetta líklega of góð hugmynd til að ná fram að ganga. :-)

 


Að koma heim

Við komum heim til Íslands hinn 12 júlí síðastliðinn og mikið var það nú gott. Koma heim í góða veðrið, en í mínum huga er veðrið okkar alltaf gott, bara misjafnlega gott. Rétt einsog mannskepnan. Er búinn að hitta marga vini og vandamenn og fór í jarðarförina hans Egils vinar míns Jónssonar. Við Egill töluðum reglulega saman í símann og við höfðum ákveðið að þegar ég kæmi næst heim, sem er núna, þá  ætluðum við að hittast því það var orðið nokkuð síðan við höfðum sést.

Kynni okkar Egils hófust fyrir allmörgum árum síðan. Hann bauð mér nokkrum sinnum að koma með sér í fundarferðir um kjördæmið sitt og kynnast fólki þar, bændum og sjómönnum. Þetta eru mér alveg ógleymanlegar stundir og Egill einstakur ferðafélagi. Verðmæti þess að ferðast um sveitir landsins með kunnugum ætti að vera skylda hvers manns. Væri líklega alveg þess virði að skylda alla skóla landsins til að fara í reglulegar heimsóknir til bænda og sjómanna um landið til að kynnast þjóðinni og auðlindum hennar. Kynnast menningunni og sögunni í gegnum fólkið sem kann svo vel að segja frá og fræða.

Egill tók mikinn þátt í því verkefni sem mér hefur verið falið. Hann hafði óbilandi trú á okkar afurðum og áttum við það sameiginlegt. Hann hafði skoðanir á öllu og var fróður maður sem vissi allt um sína byggð og vildi fyrir alla muni leggja sitt af mörkum til að styrkja stöðu bænda og sjómanna um land allt. Ég lofaði honum því fyrir margt löngu síðan að ég myndi aldrei gefast upp við að koma afurðum okkar á framfæri á sælkeramörkuðum heimsins og við það mun ég standa.

Egill minn ég koma í heimsókn til þín í þína fögru sveit og fann vel fyrir nærveru þinni og kvaddi þig. Hitti þína góðu konu  Halldóru og fjölskyldu þína. Hreinlega var agndofa yfir ykkar sérstæðu kirkju þar sem athöfnin fór fram alveg einsog þú hefðir skipulagt hana sjálfur. Til mikils sóma fyrir alla sem viðstaddir voru og það var nú enginn smá hópur af fólki. Blessuð sé minning um góðan, traustan mann. Megi andi þinn og atgervi lifa um aldur og ævi. Halldóra mín, sendi þér mínar samúðarkveðjur og þakklæti fyrir allar góðar glaðar stundir sem við höfum átt. Megi Guð blessa og styrkja þig og  fjölskyldu ykkar á sogarastundu.


Hugleiðing um fisk

Jæja þá hefur maður loksins tíma til að koma sér í smá blogg. Síðan 10 júlí er ég búinn að flækjast mikið og ekki komist í gott net samband fyrr en núna. En mér finnst gott að hafa bloggið sem aðhald fyrir það sem ég er að fást við og setja svo inná það einhverjar hugleiðingar fyrir vini og vandamenn í bland.

Að lokinni umtalsverðri kynningu á landbúnaðarafurðum og fiski í verslunum Whole Foods þá hefur það verið mér hugleikið hvað landbúnaður og sjávarútvegur að ógleymdri ferðaþjónustu eiga frábærar samleið samleið við kynningu lands og þjóðar. Maturinn skiptir ferðamenn miklu máli þegar lönd eru valin sem heimsótt eru. Framleiðsla matvælanna skiptir líka máli ef hún er stunduð á þann hátt sem við gerum.

Þegar við kynntum fiskinn, steiktan uppúr úrvals smjöri og buðum svo uppá skyrið góða í eftirrétt þá var maður stoltur af því þessi samsetning á mat, sem er í raun ekkert nema gamli góði hádegismaturinn hjá mömmu. Á þeim tímum þegar þjóðin var grönn og spengileg.

Það sem aftur á móti kom mér í nokkuð opna skjöldu var sú staðreynd að fiskurinn okkar er nánast ekkert þekktur meðal hins almenna neytanda í Bandaríkjunum. Það vissi ekki nokkur maður að við værum fiskveiðiþjóð og að hafið í kringum landið væri hreint og vinnslan og veiðarnar færu fram samkvæmt lögum um sjálfbæra fiskveiðistjórnun og við byggjum yfir mikilli þekkingu á sjávarútvegi.

Hver er ástæða fyrir þessu? Hún er jú sú að mest af okkar fiski fer frystur á markaði og sá ferski fer á almenna fiskmarkaði. Þar eru menn vel að sér um íslenska fiskinn og þar gengur vel að selja hann einsog annan fisk. En eftirspurn eftir fiski er allsstaðar í heiminum mikil og eykst með hverju ári.

Í þessu felst í mínum huga gríðarlegt tækifæri. Það ætti að vera metnaðarmál okkar að komast nær neytendum með fiskinn okkar rétt einsog með landbúnaðarafurðirnar og kynna landið og afurðir þess sem úrvals matvæli framleidd á skynsamlegan hátt í sátt við umhverfið, náttúruna og góða meðferð dýranna.

Hinn 10 og 11 júlí átti ég svo fundi í Boston á leið minni heim til Íslands, með fulltrúum íslenskra smábátaeigenda og í framhaldi af því með yfirmönnum Whole Foods sem sjá um innkaup á fiski fyrir verslanir þeirra. Þar var rætt um ný markaðstækifæri fyrir sjávarafurðir sem og eldisfisk af þeirri reynslu sem við fengum af kynningu okkar í Washington.


Þetta er það sem skiptir máli

Þetta er mikil gleðifrétt. Við sem þjóð, erum umfram allt matvælaframleiðsuþjóð og getum verið stolt af. Það er fiskurinn sem skapar tekjurnar og landbúnaðurinn tryggir matvælaframboðið sem gerir það að verkum að við erum sjálfær við framleiðsu matvæla og þurfum að eyða minni fjármunum til að flytja inn mat.
Það verður aldrei gaman að vera íslendingur ef bóndinn og sjómaðurinn fá ekki að njóta sannmælis í umræðunni um svokölluð lífsgæði. Sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem lífið og tilveran snýst um. En svo vaknar bara spurningin þessi: Í hverju felast lífsgæðin, svar því hver fyrir sig.
mbl.is Aflaverðmætið 80 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sjálfsögðu

Surtsey á það auðvitað alveg skilið að vera á heimsminjaskrá. Ekki spuring. Til hamingju Ísland.
mbl.is Surtsey á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MorganFreeman leikur Nelson Mandela

John Carlin, sem ég sagði frá í síðasta bloggi hefur nú skrifað ævisögu Nelsons Mandela. Í tilefni útgáfu bókarinnar og þess að nú hefur verið ákveðið að gera stórmynd eftir bókinni var efnt til blaðamannafundar í New York 1 júlí síðastliðinn.

Þegar John var heima í vetur sagði hann okkur Sigga frá því að þetta stæði til. Ég lagði þá til við John að hann fengi Penguin bókaútgáfufyrirtækið til að halda blaðamannafundinn í einu af þeim veitingahúsum sem við erum að vinna með og um leið fengi ég tækifæri til að kynna matinn okkar góða. Síðan leið nokkur tími þangað til að Penguin hafði samband samkvæmt ósk Johns. Þeir samþykktu hugmyndir mínar og að ég fengi Aquavit til að sjá um matinn sem yrði Norrænn með íslensku ívafi.

Þetta fannst mér vænt um og lagði mig fram  að þetta tækist sem best. Við Siggi heimsóttum staðinn um miðjan júní og hittum aftur eigendur staðarins og ræddum við þá ýmsar hugmyndir sem ég segi frá síðar.

En semsagt blaðamannafundurinn hófts klukkan 12:30 og var til hans boðið helstu frammámönnum stóru fjölmiðlanna sem hafa höfuðstöðvar í New York. Þetta voru miklar kanónur og gaman að hitta þetta fólk og geta sagt sögur að heiman. John hafði flogið til NY  aðfararnótt þriðjudags frá London þar sem hann var viðstaddur afmælistónleika  Mandela sem haldnir voru í  tilefni 90 ára afmælis hans. John fór svo til baka til London um kvödið.

Fólk fór að koma á Aquavit uppúr klukkan 12 og fyrstur kom Morgan Freeman leikari. Vildi svo til að ég var einn salnum þar sem fundurinn átti að fara fram. Hann kom til mín og spurði hvort hann væri ekki á réttum stað? Ég sagði svo vera. Hann kynnti sig þá og sagði ég er Morgan Freeman og var boðaður á þennan fund. 'Eg sagði til nafns og við tókumst í hendur. Hann tók þéttingsfast í höndina á mér, sem ég kann að meta og sagði við hann: "þú ert kannski Víkingur"? Ha, sagði Morgan hvað áttu við? Ég sagði við hann hvað mér þætti nú mun vænna um þéttingsföst handtök en svona vemmileg sem sumir gera.

Þetta varð til þess að við fórum að ræða um handtök, hvernig þau komu til og hvernig fólk heilsast í mismunandi löndum og menningarsvæðum. Ég sagði honum það sem ég vissi og hann sagð mér frá nokkrum Afríku handaböndum. Þetta vakti einhverja athygli því blaðakona frá New York Times spurði okkur hvað væri í gangi? Við sögðum henni það og höfðum öll gaman að.

Fundurinn hófst svo með því að ritstjóri bókarinnar kynnti John Carlin og þeirra samstarf sem honum þótti mikið til koma.  Siðan tók John við og sagði frá aðdraganda þess að hann skrifaði bókina. Sagði svo frá því hvernig umboðskona hans Anne Edelstein kynnti handritið fyrir útgáfufyrirtækjum í Bandaríkjunum.

Þá sagði hann frá því að hann hefði verið boðaður á fund með útgefendum og þar hefði verið lagt á ráðin með að fá kvikmyndafyrirtæki til að gera kvikmynd byggða á bókinni, sem þeim þótti svo frábær. John fannst þetta vera mjög Amerískt. Fólkið hefði líklega verið í einhverri tilfinningavímu eftir að hafa lesið bókina og af sinni alkunnu hógværð taldi hann að eitthvað væru útgefendur að ofgera gæði bókarinnar en samþykkti fyrir sitt leiti að senda drög að kvikmyndahandriti til kvikmyndafyrirtækjanna í Hollywood.

Hann hafði svo ekkert mikið verið að hugsa um þetta mál en var falið af stórblaðinu EL PAÍS að skrifa grein um Suðurríki Bandaríkjanna. Spennadi verkefni fyrir ævintýramanninn John. Hann hafði samband við vini sína í New York til að finna fólk sem gæti hjálpað honum við efnisleit. Þeir gerðu það og komu honum í samband við mann sem tók svo á móti honum í Memphis Tennesse. Hann hóf því ferðalagið um Suðurríkin þar.

John sagði svo skemmtilega frá atburðarrásinni að ég treysti mér ekki til að segja söguna alla, því hún verður sögð hort sem er  þegar hennar tími kemur. En í stórum dráttum endaði hann á veitinghúsi í litlu þorpi í Mississippi. Fékk þennan fína Surríkja mat sem leiddi til þess að hann spurði um kokkinn til að þakka fyrir sig. Hann sagði honum frá því að eigandi veitingahússins væri Morgan Freeman leikari og væri á leiðinni í mat með vinum sínum.

Þvílík tilviljun sagði John, ég hef einmitt verið að hugsa til Morgans síðustu vikur. Gæti ég kannski hitt hann? Ég skal kynna þig fyrir honum sagði maðurinn. Það var einsog við manninn mælt, John hitti Morgan og sagði honum frá bókinni um Nelson Mandela og að hann sæji engan annan betur til þess fallin til að leika Mandela en hann, Morgan.

Undarleg tilviljun sagði Morgan. Ég var einmitt að lesa handritið sem sent hafði verið til framleiðslufyrirtækisins míns og líst vel á. Ertu búinn að fá leikstjóra spurði Morgan. Nei sagði John ertu með hugmynd? Já Clint Eastwood hann væri bestur í þetta. Fínt sagði John. Morgan hringdi þá strax í Clint og úr varð samkomulag um að hann myndi leikstýra myndinni og Matt Damon myndi jafnframt leika eitt af aðalhlutverkunum. Tökur hefjast svo í Suður Afríku í febrúar á næsta ári. Já svona gerast hlutirnir á eyrinni.

Tilefni blaðamannafundarins var semsagt þetta að kynna þessa atburðarrás og segja þessa dásamlegu sögu sem enginn segir betur en John. Fundurinn fór síðan þannig fram að blaðamenn sátu við 5 borð og John og Morgan skiptu um sæti eftir hvern rétt og spjölluðu við blaðafólkið. Maturinn sem kom frá okkur var smjör á öllum borðum með ekta fínu norrænu brauði sem veitingahúsið bakar sjálft, reykt bleikja, lambalundir, skyr og ostar í eftirrétt. John talaði við alla um matinn okkar sem honum finnst svo góður og fékk það góðar undirtektir og tóku með sér efni um íslenskan mat.

Síðasta borðið sem þeir félagar komu svo á var borðið sem ég sat við. Morgan spurði mig út í matinn og vildi gjarna fá að kynnast honum betur. Talaðist okkur svo til að reyna að hittast aftur og þá með eina fína íslenska matarveislu, því hann er mikill sælkeri. Morgan er einmitt að leika á sviði á Broadway þessa dagana í leikritinu Country Girl. Þá vildi hann endilega fá matreiðslumeistarann sinn til að koma á næsta Food and Fun. Verðu nú unnið að því.

Morgan er einstakur maður. Hann kemur sérlega vel fyrir og átti ég þess kost að ræða nokkuð mikið við hann í einrúmi eftir að flestir voru farnir nema gestgjafarnir frá Penguin og John. Hann hefur mjög sterkan persónuleika og geilsar af honum. Rödd hans er líka einstök og án nokkurs vafa sú fallegasta sem maður heyrir enda hefur hann talað inná mörg meistarverkin. Það var mjög gaman að hitta þennan góða mann og alla hina sem voru mjög ángæðir með skipulag fundarins og matinn sem fram var borinn. Svona stundir koma sér vel og alltaf gaman að hitta nýtt fólk á lífsleiðinni maður veit svo aldrei hvort leiðir liggji saman að nýju og þessi fundur er upphaf að ýmsu sem mun koma sér vel í verkefninu hér fyrir "Westan".


John Carlin og Nelson Mandela

John Carlin blaðamaður er mikill og sannur "Íslandsvinur". Hann hefur skrifað fjölda greina um Ísland, fólkið í landinu, náttúruna og matinn. Hann skrifaði um daginn grein í breska stórblaðið The Guardian  sem vakti mikla athygli, jafnt heima sem víða um lönd og var fyrirsögnin á greininni, sem var fyrirferðarmikil og mjög vönduð,  "Hversvegna eru íslendingar hamingjusamasta þjóð í heimi" eða Why Iceland has the Happiest People on Earth.

John sem búsettur er í Madrid á Spáni hefur skrifað fyrir mörg af útbreiddustu blöðum heims og má þar meðal annars nefna El País útbreiddasta spænskumælandi blað í heimi, þá skrifar hann reglulega fyrir The Guardian, Observer, New York Times, osfrv. John er mikill aðdáandi Íslands. Ekki bara landsins heldur þjóðarinnar sem hann telur einhverja mest spennandi þjóð heims. Hann kann að meta uppruna okkar og lífsgæði, sem eru einstök að mörgu leiti. Honum líkar við veðrið, náttúruna, fólkið í landinu og hráefnið okkar sem hann hefur einstakar mætur á og skrifaði heljarmikla grein um matinn og okkar Norræna samstarf sem við Siggi Hall vinnum fyrir hönd okkar íslendinga í El País um daginn.

Hann skrifaði líka um andlát Bobby Fishers og samskipti hans við íslendinga. John á góða vini á Íslandi og hefur átt góða samskipti við marga sem honum líkar mög vel. John hefur auk blaðamennskunnar, meðal annars skrifað bækur og á meðal þeirra er: "White Engels: Beckham, The real Madrid and the New Football" Bókin kom út fyrir fjórum árum en hefur nú fengið enn meiri athygli hér í Bandaríkjunum eftir að Beckham fór að spila með LA Galaxy og var hún uppseld á Amazon í morgun en fleiri bækur eru á leiðinni.

John er mikill áhugamaður um knattspyrnu og er innsti koppur í búri hjá Real Madrid og eru forseti klúbbsins og hann mikli vinir. Þá sagði hann okkur Sigga Hall þegar við áttum stund saman heima í vetur að hann hefði mætur á Eiði okkar Gudjonsen sem hann taldi vera vanmetinn hjá Barcelona. Þá stefnir hann að því að gera heimsmeistarakeppninni í Suður Afríku skil árið 2010 enda vel tengdur í þeim heimshluta.

Hinn 14 ágúst næstkomandi  kemur svo út ný bók eftir John  sem ber heitið: "Playing the Enemy: Nelson Mandela and the Game That Made a nation". Einsog heiti bókarinnar gefur til kynna fjallar bókin um líf og ævi þessa stórkostlega manns sem er goðsögn í lifanda lífi. John hefur sagt okkur sögur af því hvernig hans vinátta við Nelson varð til og samskiptum við hann sem var einstakt samband. Það voru strax þó nokkuð margir útgefendur sem vildu gefa bókina út sagði Anne Edelstein umboðsmaður Johns sem ég hitti fyrir skömmu. En það var svo ákveðið að ganga til samstarfs við Penguin útgáfufyrirtækið. Ég er sannfærður um að bókin verður ein mest selda bók sem út kemur á þessu ári. Það eru margir sem bíða spenntir og er nú þegar hægt að panta hana hjá Amazon.com.

John Carlin er einn af þessum mönnum sem maður hittir á lífsleiðinni sem manni líkar strax vel við. Hann er mjög alþýðlegur og vinsamlegur og um leið einhver duglegasti maður sem ég hef kynnst. Hann er mjög vel að sér á öllum þeim sviðum sem við höfum rætt og hefur sannarlega skoðanir á öllu. Mjög vel menntaður og bráðskemmtilegur með einstaka frásagnarhæfileika.

Síðast þegar John var á Íslandi var tilefnið Food and Fun. Hann naut þess vel og fékk sérstakan áhuga fyrir þeim verkefnum sem tengjast matarhátíðinni og hefur  skrifað greinar um það í erlenda fjölmiðla einsog fram hefur komið. John hefur þann eiginleika að fara eigin leiðir og sér svo oft atburði frá öðrum sjónarhóli en almenningur gerir. Þetta líkar mér í fari hans. Hann hugsar alltaf langt út fyrir boxið og hefur sérlega gott skopskyn.

Við erum nú að skoða tækifæri í samráði við einhverja mestu vísindastofnun heims um að stofna vísindamiðstöð á Íslandi sem getur þjónað heimsbyggðinni með mjög jákvæðum og skemmtilegum hætti. En þetta verkefni er komið í ákveðin farveg og við sjáum hvað setur. Það byggist á hugmynd sem við ræddum heima á Íslandi í vetur sem leið.

Við tölum oft um íslandsvini með jákvæðum formerkjum og höfum gaman af. En ef það er til sannur íslandsvinur þá er það John Carlin. Það er enginn sem ég hef hitt sem fer jafn fögrum orðum um land og þjóð og hann gerir. Ég hef allavega ekki heyrt neinn gera það vel og John Carlin.

 


Hátíðarkvöldverður í Washington

Hinn 29 júní sl. var haldin hér í Washington árlegur hátíðarkvöldverður samtaka veitingahúsa á svæðinu. Í þetta sinn var einungis boðið uppá íslenskan mat sem ég var búinn að segja frá áður hér á blogginu og birta matseðilinn en var nú að koma myndunum af réttunum í myndaalbúm sem hér fylgir nú með.

Á þennan hátíðarkvöldverð mæta allir sem eitthvað mega sín í matarbransanum því þarna eru kynnt úrslit í keppni veitingahúsa um besta veitingahúsið, matreiðslumeistarann, starfsmennina osfrv. Nánari upplýsingar um úrslitin má sjá á www.ramw.org

Þar sem við erum nú að hefja undirbúning á sölu íslenskra matvæla til veitingahúsa þá var þetta kjörinn vettvangur til að kynna fiskinn okkar og landbúnaðarafurðir. Það fer ekki á milli mála að það mun verða afar farsælt fyrir okkur að vinna að svona kynningum með sjávarútvegi og ferðaþjónustu einsog gert var á Íslandsdögunum. Ég held líka að þetta sé í fyrsta sinn sem svona er gert og lofar þetta mjög góðu að mínu mati. Að selja  okkar afurðir á neytendamarkað undir íslenskum merkjum mun hiklaust vekja athygli einsog við fundum sterklega fyrir þessa daga.

Það er óhætt að segja að Ísland hafi náð athygli þeirra tæplega 2000 gesta sem sóttu hátíðina. Það voru settir upp 8 risaskjáir og á þeim birtust vídeó myndir frá Íslandi. Sjómenn í róðri, bændur að smala saman fé og stunda sinn búskap og merki íslensku fyrirtækjanna voru mjög áberandi.

Þá var maturinn semsagt allur íslenskur og var bleikjan frá Vatnsleysu, síðan var mjög spennandi og frumlegur pastaréttur gerður úr skyri og Stóra Dímon ostinum í millirétt. Þá var aðalrétturinn lamba steik og í desert var skyr með Siríus suðusúkkulaði.  Allt smjör á borðum var rækilega merkt  sem smjör frá Íslandi og hefur það svo sannarlega notið hylli sérfræðinga í matreiðslu enda mikið gæðasmjör og er ég sannfærður um að það á eftir að njóta sín á sælkeramörkuðum í framtíðinni. Alsekki síður en Kerrygold frá Írlandi og Lurpak frá Danmörku.

Kynnar kvöldsins, fréttafólkið James Adams Íslandsvinur frá NBC  og Sue Palka frá FOX fóru á kostum allt kvöldið einsog þeim einum er lagið og talaði James mjög falleg um Ísland eftir ferð sem hann fór heim þegar gerður var þáttur um íslenska bóndann og sjómanninn. Hann flutti þrisvar sinnum hjartfólgnar ræður um ferð sína heim og reynslu af því að hitta bændur og sjómenn en hann fór einmitt í réttarferð og út á bát fyrir Austan. Svo gat hann auðvitað ekki á sér setið þegar hann kynnti matinn okkar sem borinn var fram um kvöldið og fór fögrum orðum um gæðin.

Matreiðslumaður ársins var svo krýndur með glæsibrag í lok dagskrárinnar og var  Eric Ziebold frá City Zen veitingahúsinu í Mandarin Oriental Hótelinu var valinn Kokkur ársins en hann var einnig valinn kokkur ársins í Mid Atlantic af James Beard Award í New York í síðasta mánuði. Það var Cathal Armstrong kokkur ársins 2007 sem sagði frá valinu og frá því að sigurvegarinn myndi fá í verðlaun ferð til Íslands á vegum Icelandair á Food and Fun 2009. Mjög vel sagt frá Íslandsvináttu  stór kokkanna hér og samvinnu þeirra við Icelandair og ferða þeirra til Íslands. Það var svo Sendiherra Íslands í Bandaríkjunum Albert Jónsson sem tilkynnti um úrslitin sem voru hápunktur kvöldsins.

Gestir okkar á hátíðinni voru starfsmenn hinna ýmsu deilda hjá Whole Foods, matreiðslumeistrarnir okkar sem komu á Íslandsdaganna og  nokkrir íslendingar sem eru búsettir hér í Borginni. Þá mátti sjá þarna fjölda þingmanna, blaðamenn, borgarstarfsmenn og fleira gott fólk. ´

Það má því alveg segja að þetta stóra kynningarátak okkar hér í Höfuðborginni hafi vakið verðskuldaða athygli og sala okkar afurða var mun meiri en menn áttu vona á. Þessi reynsla sýndi að íslendingar geta náð ótrúlegum árangri þegar þeir vinna saman. Það skiptir alla máli að matvæli frá Íslandi séu sælkera afurðir og styrkir verulega ímynd okkar sem lands matvælaframleiðslu. Það hefur líka mjög jákvæð áhrif á ferðamenn sem hugsa sér Íslandsferð að matvælin séu unnin í hreinu umhverfi og dýravernd sé höfð að leiðarljósi.

Þessi kynning lagði í mínum huga drög að áframhaldandi samstarfi sjávarútvegs,  landbúnaðar  og ferðaþjónustu í sölu íslenskra matvæla og verður nú unnið hörðum höndum að næstu viðburðum sem halda áfram í sumar og vonandi í framtíðinni. 


Kemur þetta á óvart?

Ef menn halda Írska daga þá er alveg einsgott að gera það almennilega? Þegar St. Patricks dagurinn er haldinn hátíðlegur hér í Bandaríkjunum þá fer af stað gríðarlega drykkja því Írar eru þekktir fyrir að taka sæmilega vel á því  þegar þeir skemmta sér. Mér er sérstaklega minnistætt þegar ég var einu sinni í Chicago á þessum degi fyrir mörgum árum síðan. Þá lét  Borgarstjórinn lita á borgarinnar í grænum lit í tilefni dagsins enda af írskum uppruna og svo var mjög mikil drykkja í borginni um kvöldið og nóttina.

Það var þó enn svakalegra í New York þar sem menn byrja að drekka fyrir hádegi og margir drekka bara grænan bjór í tilefni dagsins. Þar sá maður menn útúrdrukkna um miðjan dag svona í þeim anda sem maður á minningar um frá sveitaböllunum heima í den.

Ég er ekki að mæla þessu bót bara vekja athygli á því hvað ímynd einnar þjóðar getur haft sérkennileg áhrif á fólk. Írar eru miklir gleðigjafar rétt einsog við og mér finnst ég stundum sjá meira af írskum karakter í okkur en norrænan. En það er svosem ekkert leiðum að líkjast.Undecided


mbl.is Erilsöm nótt á írskum dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldvin Jónsson

Höfundur

Baldvin Jónsson
Baldvin Jónsson
Áhugamaður um landið og miðin
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • JF2 4515
  • Baldvin RAMW
  • ...j_vcapitol2
  • ...bj_vcapitol
  • ...bj_capitol

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband