Færsluflokkur: Matur og drykkur

Happy 4

Þjóðhátíðardagurinn vinaþjóðar okkar var í gær. Þá hljómaði Happy 4 um allan bæ. Bandaríkjamenn eru sérlega iðnir við að stytta allt og skammstafa og á maður stundum fullt í fangi með að finna út hvað er hvað. En það venst einsog annað. Ég er til dæmis í miklum samskiptum við USDA, FDA, WFM, DHS, DHL osfrv. Allt hinar merkustu stofnanir og fyrirtæki og allir þekkja FBI, CIA, NBC, ABC, CBS, 24/7 og svona mætti nánast telja upp allar stofnanir og mörg fyrirtæki. En það er annað mál.

Ég ákvað í tilefni gærdagsins að taka mér frí eftir hádegi og taka góðan, langan göngutúr um borgina og hitta hinn sanna Ameríkana sem kemur til Höfuðborgarinnar Washington í tilefni dagsins. Það er nánast skylda hvers manns að koma að minnsta kosti  einu sinni á ævinni í heimsókn til Borgarinnar og þessi helgi er því sérstök að því leiti að hér er gríðarlegur fjöldi Bandarískra ferðamanna á ferli um Borgina.

Macy´s er ein af þessu  dæmigerðu stórbúðum sem gerir mikið út á þjóðerniskenndina. Þeir eru helstu stuðningsaðilar skrúðgöngunnar í New York ár hvert og á Þjóðhátíðardaginn sjálfan er sérstakur 4 júlí afsláttur af fjölmörgum vörum og alltaf hægt að gera góða kaup. Til að taka þátt í og reyna að upplifa Ameríkanann þá ákvað ég að skella mér á assgoti fínar gallabuxur sem áttu að kosta $ 239 en ég fékk þær á $ 59. Keypti svo skyrtu í stíl svona létt köflótta en fór ekki alla leið í litunum. Fékk mér svart hvíta. Svo voru þeir með belti sem mig hefur vantað í langan tíma en alltaf fundist belti vera of dýr. Fékk núna 3 belti sem má snúa (verða þá í raun sex)og nota bæði sem brún og svört belti öll fyrir tæpa $ 60.

Síðan löbbuðum við Magga heim aftur eftir langa og mikla göngu og mér fannst ég vera orðinn Ameríkani. Stakk því uppá því að við færum á dæmigerðan, ekta Amerískan matsölustað og fengjum okkur Ostborgara, með frönskum, tómötum og grænmeti og svo að sjálfsögðu hinn eina sanna, ískaldan Budweiser bjór . Ég fór í nýju fötin og að sjálfsögðu í hvíta sokka og svarta skó og var orðinn þessi fíni Kani. Þegar við komum inná staðinn, Daily Grill, blasti við okkur vinur minn og gamli góði félagi Steinar Berg Ísleifsson sem var að afgreiða á barnum. Ég rauk á Steinar en þá kom í ljós að þetta var alger tvífari Steinars og er Ameríkani en fannst gaman að heyra að hann ætti tvífara í Borgarfirðinum á Íslandi af öllum stöðum.

Við settumst auðvitað á barinn og borðuðum þar og fengum þessa frábæru borgara og ég get nú farið með félaga Sigga Hall á þennan stað því við erum miklir áhugamenn um hamborgara og erum enn að leita að hinum fullkomna. Borgarinn á Daily Grill fær nokkuð margar stjörnur.

Það var farið að rigna þegar við vorum búin að borða og spáin þessa helgi ekkert sérstök. Reyndar alveg nægilega heitt en rigning með þrumum og eldingum reglulega. Við horfðum svo á hina árlegu stórtónleika sem haldnir eru fyrir framan Þinghúsið í aðdraganda flugeldasýningarinnar sem hefst alltaf kl. 21:10. Þetta voru frábærir tónleikar að vanda og þar voru meðal annars Hue Lewis and the News en hann hitti ég einu sinni í París þegar við Hófí vorum þar. Enn mjög flottur rokkari. En hápunktur kvöldsins var svo hinn eini sanni Jerry Lee Lewis. Hann rokkaði fjögur frábær lög og endað á laginu Great Balls of Fire og þá hófst flugeldasýningin, með "Great Balls of Fire" við Washington minnisvarðann, háu súluna. Eldhnettir af stærstu gerð og glæsileg sýning.

Þetta atriði var snilldarlega útfært og ég minntist þess þegar Jerry Lee var í gamla Broadway hjá Óla Lauf þegar Björgvin Halldórsson varð vitni að því, sem og nokkrir aðrir, að Jerry rak bassaleikarann sinn í miðju lagi. Hann var mjög sérstakur karakter þá og er enn. En hann er nú líklega einn merkasti rokkari allra tíma, enda sagði Elvis að ef hann gæti spilað jafnvel á píanó og Jerry þá myndi hann hætta að syngja.

Flugeldasýningin stóð í rúmar 30 mínútur og var hreint út sagt eitt stórt listaverk sem baðaði súlu borgarinnar undurfögrum ljósum og var stundum einsog súlan stæði í björtu báli. Á meðan á sýningunni stóð lék lúðrasveit hersins, sýndist þeir vera um eitthundarða hljóðfæraleikarar í "bandinu". Það var engu líkara en maður væri kominn aftur á gamla Melavöllinn í Reykjavík þar sem Baldur vallarstjóri spilaði einungis samskonar lúðrasveita tónlist. Allir frægu marsarnir voru þarna samankomnir. Þetta var mjög flott sýning og þjóðerniskenndin fékk svo sannarlega að njóta sýn, því Bandaríkjamenn eru mjög þjóðernissinnaðir svona rétt einsog við heima. Og megum alveg vera það.


Öfund

Mikið óskaplega öfunda ég ykkur öll að vera heima á Íslandi þessa dagana í fallegu veðri og góðum félagsskap vina og vandamanna. Ef ég væri heima núna myndi ég ekki hika við að fara á landsmót og njóta lífsins í góðra vina hópi. En svona er lífið ekki alltaf jólin. Góða skemmtun Landsmótsgestir.
mbl.is Sex þúsund manns á Landsmóti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhátíðardagurinn

Í dag 4 júlí er einsog allir vita Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna. Það verður því mikið um dýrðir hér í Höfuðborginni. Talið er að um ein milljón ferðamanna komi til borgarinnar um þessa helgi því það hittist svo vel á að í dag er föstudagur.

Um hádegi hefst hin hefðbundna skrúðganga og síðan verða skemmtiatriði um alla borg framá kvöld en þá hefjast stórtónleikar fyrir framan Þinghúsið og svo flugeldasýningin fræga kl. 21:10 og stendur í 20 mínútur. Okkur íslendingum þykir nú ekki mikið til sýningarinnar koma hún er aðeins örlítið sýnis horn af Gamlárskvöldinu okkar.

Síðast þegar ég var heima í Reykjavík þá varð mér nú hálf brugðið. Mér fannst Reykjavík vera frekar subbuleg. Drasl um allt í Miðborginni, krass á húsveggjum, steinvölurnar að gefa sig og ryk og skítur um allt. Veit ekki hvort þetta er alveg rétt mat hjá mér en ég upplifði þetta einhvernvegin svona.

Ég var með aðsetur í Miðborginni í fjölda ára bæði í P&Ó sem voru þar sem Kaffi París er núna og svo í Moggahúsinu við Aðalstræti. Það var gaman að minnast þess þegar ég vann í P&Ó hjá þeim Pétri og Óla. Þeir voru sérlega snjallir kaupmenn af bestu gerð. Á hverjum morgni í hvaða veðri sem var fóru þeir sjálfir eða fengu okkur starfsmennina til að þvo alla glugga búðarinnar. Þeir voru mikil snyrtimenni og góð fyrirmynd annarra á svæðinu. Ketill kaupmaður í versluninni London gerði slíkt hið sama og ég man að Borgin var mjög hrein og snyrtileg.

En mér finnst þetta ekki vera gott ástand núna. Ég hitti borgarfulltrúa á gangi í borginni og spurði hversvegna ekki væru settar upp ruslatunnur um Borgina. Ég man nefnilega eftir því  þegar átakið "Hrein torg, fögur borg" var í gangi þá tóku flestir þátt í því að hafa borgina sína hreina og tunnur voru settar upp um alla borg.  Borgarfulltrúinn sagði einfaldlega að það þýddi ekkert skríllinn í bænum myndi bara henda þeim um koll og gera illt verra!

Ég vissi nú ekki hvort ég ætti að gráta eða hlægja. Er nú svo komið að stjórnvöld hafi gefist upp fyrir skrílnum? Það sem Borgarfulltrúar ættu að gera er að heimsækja til dæmis borgir einsog Washington og New York. Í báðum borgum er stöðugt verið að vinna að hreinsun borganna og eru þær til mikillar fyrirmyndar og menn geta lært af þeim. Ég held að Washington sé ein hreinasta borg í Bandaríkjunum af stórborgum og það kom mér mjög þægilega á óvart hversu New York hefur braggast í tíð Blomberg borgarstjóra.

Mér finnst að Reykvíkingar eigi að hiklaust að setja reglur um meðferð almenningseigna og sekta hiklaust þá sem leika sér að því að skemma sameiginlegar eigur íbúanna. Það má aldrei gefast upp fyrir skrílnum. Aldrei. Við eigum að hafa þann metnað að borgin okkar með 100.000 íbúum gefi ekki milljónaborgum eftir í umgengnismálum. Bara alsekki takk fyrir.Cool

Í New York, sem sennilega er nú enn mín uppáhaldsborg, hefur verið gert mjög mikið átak í hreinsun borgarinnar og má sjá mikinn mun bara á síðustu mánuðum. Þá var hávaðamengun alveg að gera útaf við mann. Bílar flautandi allan liðlangan daginn. Nú er ekki lengur leyfilegt að vera sífellt á flautunni, hana má bara nota í ýtrustu neyð Þetta er ótrúlegur munur og gerir borgina enn skemmtilegri og vinalegri fyrir bragðið.

Þá hafa borgaryfirvöld bannað matsölustöðum að steikja mat í transfitusýrum en bannið tók einmitt gildi hinn 1 júlí og hefur vakið athygli víða um heim. Það sem er merkilegt við þetta bann er í fyrsta lagi það að hér er í fararbroddi ein allra fjölmennasta borg heims ekki eitthvert smáþorp. Þá hafa verið sett þau lög í borginni að allir veitingastaðir og kaffihús skuli gefa upp nákvæmlega hvað hver einasti  réttur inniheldur. Þá er það $ 150 ( kr. 12000) að henda frá sér rusli. Það skulu svo allir leigubílar og bílar í eigu borgarinnar verða orðnir vistvænir fyrir árslok 2011.

Það er fyrir mörgum mjög undarlegt í landi frelsisins að hér skuli nú vera sett bönn á svona atriði. En Bandaríkjamenn eru að verða meir og meir meðvitaðir um samfélagslega skyldu sína og er áberandi til dæmis í umræðunni um heilbrigðiskerfið og menntakerfið að sífellt fleiri tala um nauðsyn þess að hið opinbera taki meiri þátt í rekstri skóla og sjúkrahúsa og taki upp sambærilega þjóðfélagsskipan og við þekkjum í Evrópu og Kanadamenn hafa gert. Já þetta er svona og er að mörgu leiti nokkuð merkilegt.

En þetta land er stórkostlegt land og fólkið upp til hópa vinsamlegt, dugmikið og traust. Það sem menn eru svo að upplifa hér í pólitíkinni er sú staðreynd að í framboði eru annarsvegar fullorðinn maður hokinn af reynslu, sá elsti í sögu Bandaríkjanna sem boðið hefur fram krafta sína til Forseta landsins og kornungur blökkumaður sem vann sigur á miðaldra konu sem við þekkjum öll. Þessi barátta er því um margt sérkennileg, fleiri hafa kosið í forkosningum hér en áður og eru það einkum hinir svokölluðu "Baby Boomers" eða hipparnir sem eru nú komnir yfir 60 ára aldurinn og hinsvegar fólk undir 25 ára. Afa- og ömmu börn hippanna. Þessi tveir þjóðfélagshópar virðast hafa sömu skoðanir á því hvernig eigi að stjórna þessu mikla og stórbrotna landi og þjóð.

Jæja þá er best að fara í skrúðgönguna og skella sér í eitt af hinum stórkostlegu söfnum sem eru hér í borginni. Mér skilst líka að það séu til sýnis listaverk eftir íslenskar konur í listasafninu National Museum of Women in the Arts.En þar stjórnar sadfninu góð kona sem hefur miklar mætur á Íslandi og hefur meira að segja mynd eftir íslenska listakonu á skrifstofunni sinni. Þær sem sýna núna ef ég man rétt tilheyra hópi sem kallar sig Icelandic Love Corporation. Verður spennandi.


Dapurlegt

Það er ósköp dapurlegt að sjá þegar hvert "stór" blaðið á fætur öðru segir upp fólki í stórum stíl. Um daginn sagði Washington Post upp 120 manns og fleiri fjölmiðlar eru á sömu leið. Kannski er hinn prentaði miðill að lognast útaf. Vona nú samt ekki. En þetta erum við sjá um allan heim og er greinilegt að þessi þróun er hafin.

Það er líka skoðun margra að það sé alveg óþarfi að eyða svona gríðarlega miklu timbri til að prenta blöð á þegar netið verður fullkomnara með hverjum degi sem líður.

Blöðin munu nú í auknu mæli, rétt einsog flugfélögin, ráða starfsfólk í sérstök verkefni, svokallaða "free lance" blaðamenn. Með því móti geta blöðin losnað við allan aukakostnað við fastráðningu og þurfa ekki að veita fólki sumarleyfi né veikindafrí.

En um þetta fólk gilda ekki sömu reglur og traustir fjölmiðlar hafa tileinkað sér með því að þiggja ekki boð fyrirtækja og einstaklinga. Semsagt trúverðugleiki fjölmiðla er á undanhaldi. Og það er ekki gott. 


mbl.is 250 sagt upp hjá L.A. Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki minni í Ameríku

Þar sem við búum nú hér í Ameríku verðum við ekki síður vör við slæmt efnahagsástand. Var til dæmis í New York í fyrradag. Þar hefur nú verið ákveðið að allir leigubílar skuli verða umhverfisvænir og eyðslugrannir eftir 3 ár. Enginn bíll verður skráður nema uppfylla þessi skilyrði eftir 1 október næstkomandi.

Umræða um að minnka eldsneytisnotkun er gríðarlega áberandi hér. Ég hitti vin minn hér á sunnudag útvarpsmann sem sendir út reglulega pistla á Klassik FM útvarpsstöð hér í Washington og nágrenni. Hann mundi eftir viðtali sem hann tók við mig fyrir þremur árum. Þar ræddum við um Ísland og umhverfismál. Hann spurði mig líka um álit mitt á Bandaríkjamönnum varðandi umhverfismál. Ég sagði þá að mér finnist það vera mikilvægt fyrir Bandaríkjamenn að hækka eldsneyti til samræmis verði í Evrópu eða þrisvar til fjórum sinnum hærra á þeim tíma. Með því móti myndu bílaframleiðendur hiklaust finna leiðir til að minnka eldsneytisnotkunina. Man að hann sagði við mig þá eitthvað á þá leið að þetta væri nú umræða sem ekki félli í kramið hjá fólki og örugglega myndi enginn stjórnmálamaður þora að halda þessu fram. En nú hefur þetta einmitt gerst.

En hvað gerist svo núna? Hver er hvatinn, hann er jú sá að allir bílaframleiðendur eru að koma með á markað hybrid bíla. Vetnisumræðan aldrei verið meiri og ýmsir aðrir kostir í stöðunni. Það er nefnilega einn af kostum efnahagskreppunnar, ef kost skal kalla, sá að menn skoða alla möguleika til að nýta betur og finna nýjar lausnir. Það fylgir ávallt samdrætti nýjar hugmyndir og nýtt hugvit.

Það verða því allir að leggjast á eitt og finna leiðir til að spara og nýta. Hér í Ameríku hefur húsa og íbúðaverð ekki verið lægra í 15 ár, bílaverð aldrei verið lægra, fólk hefur lækkað þjórfé á veitingahúsum. Nú um þessa helgi þjóðhátíðarhelgina munu 30% færri ferðast lengra en 30 kílómetra frá heimilum sínum en í fyrra og svona má lengi telja. Velmegunarríkið hér er að glíma við alveg sama vanda og við heima á Íslandi.  Hér eru líka allir meðvitaðir um að olíukreppan er alheimsvandamál en skattur af bensíni hér er ekki nema um 12% af útsöluverðinu.

Við heima getum sannarlega verið þakklát fyrir náttúrulegu orkuna sem landið býr yfir. Hvernig væri ástandið  ef við þyrftum líka að nota olíuna til að kynda hús og nota í rafmagn einsog þjóðir í kringum okkur. Þá væri nú ástandið miklu miklu verra og sennilega stefndum við í hreint gjaldþrot. Maður verður að sjá einhvern sólargeisla í ástandinu annars verður maður bara geggjaður. Lífið er enn og verður ávallt fullt af tækifærum......


mbl.is Slæmar horfur í efnahagslífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsdagarnir

Íslandsdögunum hér í Washington  lauk formlega á þriðjudaginn með hádegisverði sem mér var falið að sjá um fyrir Penguin bókaútgáfufyrirtækið sem ég segi frá síðar.Mér þykir því leitt að vera ekki búinn  að senda þetta blogg frá mér fyrr og biðst afsökunuar á því. Get alveg viðurkennt það að ég hef bara ekki komist í það fyrr en núna. Fór til New York á máudag eftir að hafa komið okkar fólki aftur heim til Íslands og kom ekki hingað til baka fyrr en á þriðjudagskvöld.

Það er alveg óhætt að segja að árangurinn sem við náðum í verslunum Whole Foods Markets fór talsvert frammúr mínum vonum og margt sem við lærðum. Hingað komu þessir líka fínu, duglegu og skemmtilegur kokkar að heiman þeir Þormóður, Kjartan, Sigurður Ragnars., Guðmundur og auðvitað Siggi Hall sem hefur verið mín helsta hjálparhella á sviði eldunar og kynninga frá því verkefnið hófst.

Siggi Hall var gestur JC Hayward í beinni útsendingu hjá CBS sjónvarpsstöðinni. JC er mikil "díva" glæsileg kona og mjög vinsæl hér í borginni og tók okkur mjög vel og er komin í "Íslandsvinahópinn" okkar. Hún fékk sér að smakka matinn okkar og fannst það bara fínt að sýna hann í útsendingunni. Hún fór svo fögrum orðum um allan matinn að maður varð bara hrærður, svona einsog skyr!Menn að gera klárt fyrir daginnBiðröð hjá Ris og Sigga

Þá fékk ég Jón Hauk hingað til að hjálpa við akstur og redda málum ásamt einum af okkar vinum hér Tim Gordon. Allt gekk þetta vel en var gríðarleg vinna og kokkarnir okkar, sem auk þess að standa uppá endann og tala við viðskiptavini, þá elduðu þeir mat á fimm fínum veitingahúsum á kvöldin. Þá tóku þeir þátt í að undirbúa tæplega 2000 manna hátíðarkvöldverð sem ég segi frá síðar.

Fyrir þessa frábæru frammistöðu þessara góðu manna er ég ævarandi þakklátur og eiga þeir ekkert nema mikinn heiður skilið. Þeir áttu stóran þátt í því að okkur tókst að selja tæp 5 tonn af bleikju á þessari viku, hefur einungis verið um 400 kg að meðaltali á viku fyrir þessa kynningu. Þá var salan á ostum, skyri, súkkulaði að ég tali nú ekki um smjörinu mjög mikil og meiri en við bjuggumst við. Bleikjan var nefnilega steikt uppúr smjörinu með smá möndlum, dill og salti. Fólk stóð agndofa yfir pönnunum hjá félögum okkar og sáu þegar þeir steiktu bleikjuna með roðinu á. Steiktu í eina og hálfa mínútu og sneru roðinu niður, sneru svo bleikjunni við í rúmlega hálfa mínútu og aftur á roðið í tvær til þrjár mínútur og buðu svo gestum að taka sér bita beint af pönnunni. Þetta tókst afar vel og ilmurinn var indæll og bragðið eftir því.

Það sem koma mér nokkuð á óvart var hvað viðskiptavinir búðanna vissu í sjálfu sér lítið um bleikjuna sem annað hvort er kölluð Arctic Charr eða Trout. Hefur ekki verið áberandi í verslunum en átt hylli veitingahúsa. Mér fannst ég því vera að upplifa svipað og þegar við byrjuðum að kynna skyrið fyrir viðskiptavinum búðanna. Afurð sem enginn þekkti en er nú sífellt að festast betur í sessi. Við munum nú fylgja eftir þessu átaki því nú hafa stjórnendur verslananna sannfærst um það að bleikjan er mjög góður valkostur fyrir þá sem eru vanir laxinum. Það er nefnilega margt sem bendir til þess að það verði erfitt að fá lax á næstu árum og er því bleikjan verulega góður valkostur enda af laxastofni.

Síðan settu strákarnir okkar upp hlaðborð með öllum hinum afurðum sem við kölluðum The Iceland Gourmet Buffet. Fólk staldraði við hjá kokkunum sem fræddu viðskiptavinina um gæði íslenskra matvæla, hinn sjálfbæra landbúnað og fiskveiðistjórnunarkerfi sem er einstakt í veröldinni. Þá sögðu þeir kokkarnir frá hinni sjálfbæru orku og kynntu möguleika til ferðalaga til Íslands.

Dreift var glæsilegum bæklingi með upplýsingum um afurðir okkar, ferðaþjónustu, vakin athygli á heimasíðu sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytisins og svo er auglýsing á baksíðunni frá Icelandair. Á forsíðu bæklingsins sem Whole Foods vann með okkkur segir: Whole Foods Markets is Proud to Present  ICELAND, eða WFM er stolt af að kynna Ísland. Í mínu huga er þetta líklega ein allra mesta viðurkenning sem íslensk matvælaframleiðsla hefur fengið.

 Whole Foods fyrirtækið nýtur þess að vera ein allra virtasta matvælaverslunar keðja í veröldinni sem hefur umhverfismál, dýravernd og náttúruna að leiðarljósi. Þeir selja engin matvæli né snyrtivörur sem geta haft skaðleg áhrif á náttúruna, dýrin, umhverfið né mannskepnuna. Engar óhollar afurðir eru seldar í búðunum. Þessi ummæli þeirra eru því mikil hvatning til okkar sem höldum því fram að íslenskur matur sé einn mesti gæða matur sem völ er á.

En Whole Foods verslanirnar eru ekki ódýrar búðir. Þeir gera sér grein fyrir því að ef menn framleiða matvæli með þeim hætti að hann uppfylli skilyrði þeirra um lífræna framleiðslu, náttúrulega og sjálfbæra þá kosti slíka matvara meira í framleiðslu og vil ég meina að þá sé réttara að segja að maturinn sé seldur á sanngjörnu verði. Til að tryggja mestu framlegð fyrir frumframleiðendur sjálfa svosem bændur og sjómenn fara búðirnar frammá að öll viðskipti fari fram beint við fyrirtæki í eigu sjómanna eða bænda. Með því móti er tryggt að frumframleiðandinn fái sem mest í sinn hlut og varan fari  ekki yfir þau verðmörk sem gera hana óseljanlega. Allar vörur hafa takmarkað verðþol. Þeir eru algerlega á móti milliliðum sem sem ekki leggja fram neinn virðisauka í framleiðslu og flutningsferlinu. Okkur hefur tekist að tryggja heima að svo sé.

Ég endurtek því þakklæit mitt til allra þeirra sem studdu þetta metnaðarfulla verkefni og lofa að senda fljótlega upplýsingar um hina tvo atburðina.


Að njóta vafans

Þar sem ég sit hér úti í Ameríku og les fréttir af tónleikunum heima í gær er gaman að sjá hvað vel hefur tekist til með þessum, að mörgum leiti merkilega atburði. Það að fá um 30.000 manns til að sameinast á tónleikum og hlusta á skoðanir og ræða um náttúru Íslands er auðvitað mjög merkilegt. Það sem við verðum þó að vara okkur á er að við megum ekki skiptast upp í tvo hópa og deila jafn harkalega og stundum vill verða.

Að tala svo um, í neikvæðri merkinu, um umhverfissinna sem eitthvert fólk sem lætur tilfinningar sínar ráða en ekki svokallað skynsemi getur einungis skaðað náttúruna. Það er nefnilega ekkert rangt við það að fólk hafi tilfinningar það er meira að segja frábært. Tilfinningasnautt fólk er nú ekki mjög spennandi fólk. Það hljóta því allir að vera umhverfissinnar með einum eða öðrum hætti.

Hugur íbúa annarra landa til Íslands er almennt jákvæður og virðist sem fólk hafi fengið þau skilaboð að við sem þjóð, séum að standa okkur mun betur á flestum sviðum umhverfismála en aðrar þjóðir og er það mjög ánægjulegt fyrir okkar land og afurðir þess. Það sem við verðum að gera er að halda þeirri traustu ímynd sem landið nýtur og það gerist aðeins með því að styrkja trúverðugleika okkar inná við jafnt sem út á við.

Ég hef síðustu daga fengið tækifæri til þess að tala við hundruð manna og kvenna í verslunum Whole Foods ásamt íslenskum matreiðslumeisturum og við erum allir stoltir af því hvað hin almenna skoðun fólks er á landinu okkar og afurðum þess. Mjög jákvæð og fólk spyr einmitt mikið um framleiðsluhætti okkar á matvælum sem og auðvitað orkumálin sem eru jú mál málanna í veröldinni í dag.

Þegar rætt er um náttúruna, dýrin og umhverfið verður náttúran ávallt að njóta vafans. Það er allavega mín skoðun. En það þýðir ekki að ekki megi og eigi að nýta náttúrunnar um leið og við njótum hennar.


mbl.is Óður til náttúrunnar í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri dagurinn

Í dag lýkur íslandsdögunum sem staðið hafa yfir síðustu 5 daga.  Kokkarnir okkar þeir Guðmundur, Sigurður, Kjartan, Þormóður og Siggi Hall hafa staðið sig frábærlega vel og verið þjóð sinni til sóma. Þeir hafa allir verið í verslunum Whole Foods á daginn og veitingahúsum á kvöldin. Það sem kynnt er í verslunum eru bleikja sem steikt er á pönnu í verslunum uppúr íslensku  smjöri, örlítið salt, möndlur  og kryddjurtir. Það tekur um 4 - 5 mínútur að steikja og fólk stendur við og fylgist með þeim segja góðar sögur að heima um leið og þeir elda. Viðskiptavinir læra af þeim hvað það í raun einfalt að steikja góða bleikju uppúr smjöri og tekur aðeins um 4-5 mínútur.

Á meðan meistararnir steikja þá kynna þeir jafnframt fjórar bragðtegundir af skyri, saltað og ósaltað smjör, súkkulaði og ostana Stóra Dímon og Höfðingja. Það hefur verið gaman að fylgjast með viðbrögðum neytenda þegar kokkarnir tala við þá og maður finnur vel hvað fólk er orðið miklu meira meðvitað um okkar afurðir en það var fyrir 3-5 árum síðan. Sumar búðir seldu upp bleikjuna í gær sem og smjörið en fá nýjar sendingar í dag. Það er því  alveg óhætt að segja að sá árangur sem upphaflega var stefnt að er að nást og enginn getur nú lengur sagt að það sé ekki hægt að selja íslenskar gæðaafurðir frá bændum og sjómönnum í Bandaríkjunum. Á næstu fimm árum mun því vera mikilvægt að menn standi heilshugar að því að festa afurðir okkar í sessi og fylgja vel eftir því sem unnið hefur verið að.

Í kvöld er svo hinn árlegi hátíðakvöldverður samtaka veitingahúsa á svæðinu. Þar verður einungis boðið uppá mat að heima í fjórum réttum fyrir tæplega 2000 manns. Í hinum risastóra sal Marriott hótelsins verður myndum frá Íslandi varpað uppá á risaskjái bæði ljósmyndum og kvikmyndum. Þá verða nöfn íslenskra fyrritækja stöðugt á skjáum og talsvert verður fjallað um Ísland í kynningum sem þekkt sjónvarpsfólk hér sér um. Hápunktur kvöldsins verður svo þegar Matreiðslumeistari Ársins verður krýndur en það mun verða í höndum Sendiherra okkar í Bandaríkjunum Albert Jónssyni að krýna meistarann.

Ég fór með kokkana á Hótelið í gærmorgun einsog fram kom í síðasta pistli. Við mættum kl. 8 um morguninn því kokkarnir þurftu að vera mættir í búðir klukkan 11. Þar sem við komum inn í hið risastóra eldhús hótelsins  var mikil spenna í lofti því enn átti eftir að skera lambavöðvana og snyrta fyrir eldun. Kjötið hafði náð að þiðna  um nóttina. Yfirkokkurinn á hótelinu var talsvert stressaður sérstaklega þegar ég sagði honum að þeir hefðu ekki nema 2 tíma til að vinna þetta. En ég benti honum á að hér værum við ekki með neina venjulega menn. Þeir myndu skila á tveimur tímum samskonar vinnu og aðrir myndu skila á 8 tímum. Það var einsog við manninn mælt kokkarnir okkar allir sem einn skerptu hnífana og kláruðu verkið á 45 mínútum. Mikið var maður stoltur af þeim, þarna voru hetjur landsins sverð þess og skjöldur á ferð. Frábær hópur.

Síðan verðum við  í fimm búðum í dag frá kl. 11 til 3. Vonandi ná þeir að komast tímanlega til að sjá amk seinni hálfleik í Evrópu keppninni. Stefnum að því. Síðan hefst boðið með fordrykk kl. 6 og félagarnir fara svo heim til Íslands á morgun. Þess má líka geta að kl. 12 á hádegi munu DC United mæta LA Galaxy með Beckham innanborðs hér í Höfuðborginni.


Vænt um að heyra

Mikið þykir mér vænt um að heyra að menn hafi nú aðeins slakað á. Fæ stundum í mig talsverðan óhug þegar maður les Moggann sinn og fréttir að heima að ofbeldis verkum og slagsmálum sé að fjölga. Sérlega þykir mér dapurlegt þegar ráðist er á lögreglumenn. Það er ekki gott þegar slíkt gerist. Ó nei ó nei.
mbl.is Rólegt á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Baldvin Jónsson

Höfundur

Baldvin Jónsson
Baldvin Jónsson
Áhugamaður um landið og miðin
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • JF2 4515
  • Baldvin RAMW
  • ...j_vcapitol2
  • ...bj_vcapitol
  • ...bj_capitol

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband